Icesave á mannamáli.

 

Ég er ekki að fatta fyrirbrigðin í Sjálfstæðisflokknum.  Woundering

Icesave málið er nokkurn veginn svona skv. mínum skilningi í einföldu máli;

Sjálfstæðisflokkurinn er við stjórn landsins í 18 ár og notar þann tíma m.a.  til að rýmka um reglur er lúta að ábyrgð á eigin atvinnustarfsemi, sbr. innleiðing eignarhaldsfélaga. 

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn selja einkavinum sínum bankana.

Bankarnir þenjast út og talsmaður Sjálfstæðisflokksins, Hannes Hólmsteinn heldur sérstök námskeið þar sem hann mærir útrásina.

Vinur hans, Davíð, hrópar jafnframt HÚRRA fyrir bankamönnunum.

Bankarnir hrynja.

Í nóvember, um það leyti sem skrifað er undir lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslands,  undirrita Davíð Oddsson og Árni Matthiesen viljayfirlýsingu þar sem fram kemur m.a. „Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutrygginga­kerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum."

Samningur þeirra Sjálfstæðismanna hljóðaði upp á 1300 milljarða að frádregnum eigum Landsbankans gamla og rúmlega 6% vexti, auk styttri samningstíma.

Núverandi ríkisstjórn hefur náð samningi sem hljóðar upp á 600 milljarða að frádregnum eigum Landsbankans gamla og rúmlega 5% vexti, auk lengri samningstíma.

.

Ávinningur af þrotlausu starfi núverandi ríkisstjórnar fyrir íslenska þjóð, er því 700 milljarðar auk lækkunar vaxta !  Geri aðrir betur.  Þegar eignir gamla Landsbanka hafa verið teknar upp í, ásamt vöxtum, er áætlað að við greiðum 250-300 milljarða af þessu bévítans Icesave.

Mig dreymir um að stór hluti þess náist til baka þegar við handtökum útrásarvíkingana sem hafa ekki einungis stolið frá okkur,  heldur eyðilagt orðspor Íslands með taumlausri græðgi sinni.

En þá komum við að því sem ég ekki skil.

Hvernig í ósköpunum geta Sjálfstæðismenn látið út úr sér þá vitleysu að þeir beri enga ábyrgð á óförum íslensku þjóðarinnar ?

Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn eiga Icesave !

Þeir væla þessa dagana um að ekki megi ræða fortíðina... Þeir nota uppnefni og upphrópanir eins og  nornaveiðar - Heilög Jóhanna - Steingarmur - kommúnistar - bla bla bla............

Verum á verði.  Whistling

Sjálfstæðismenn eru að gera tilraun til að endurskrifa söguna og í þeirra útgáfu er Rauðhetta orðin landráðamaður en úlfurinn er bara strípaður hani.

.

chicken3~

 


mbl.is Icesave ekki á dagskrá í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað hét, og í hvaða flokki var VIÐSKIPTAmálaráðherrann í stjórn þeirri sem Árni Matt., sat í ?? !!

 Ljúfa Anna - aldrei að blekkja sjálfan sig !

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 20:56

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Björgvin G. í Samfylkingunni og að hans sögn VISSI HANN EKKI um yfirtöku ríkisins á bönkunum fyrr en örfáum klukkustundum áður en það gerðist. 

Samfylkingin sat í stjórn síðustu 18 mánuðina - en þá var of seint að selja ekki bankana til óábyrgra aðila með skelfilegum afleiðingum...... right ?

Anna Einarsdóttir, 20.10.2009 kl. 21:01

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Er ekki tímabært að lyfta umræðunni upp úr þessum flokkspólitísku hjólförum. Það vita allir að Sjálfstæðiflokkurinn ber drjúgan part af hinni pólitísku ábyrgð, Framsókn á sinn skerf og Samfylkingin líka. Vinstri grænir eru með hreinan skjöld.

Núna er það hins vegar lausnin sem unnið er að. Menn eru enn að hengja sig í minnisblöð sem hafa ekki lagalegt gildi. Þegar upp er staðið er það ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á samningnum og Alþingi ber ábyrgð á afgreiðslu hans. Það hvað flokkurinn heitir sem gerði mistök 1994 eða 2002 breytir ekki samningnum.

Haraldur Hansson, 20.10.2009 kl. 21:07

4 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Tilefni þessarar færslu er nákvæmlega sú að Sjálfstæðismenn, bæði á þingi og á bloggi, láta eins og Steingrímur og Jóhanna hafi búið Icesave til.  Ekkert vildi ég frekar en að flokkspólitíkar þrætur tilheyrðu fortíðinni og að menn sneru bökum saman til að vinna sig út úr vandanum.  Til þess að það geti orðið, þurfa ýmsir aðilar að hafa kjark til að horfast í augu við sannleikann.

Við höfum í raun afar lítið val.... að skrifa undir Icesave samninginn..... eða að verða einangruð, vinalaus og peningalaus þjóð, rúin trausti.

Anna Einarsdóttir, 20.10.2009 kl. 22:24

5 identicon

Ljúfa Anna !

 Er það virkilega sannfæring þín - frá innstu hjartarótum - að fólkið í landinu eigi að borga skuldir EINKAbanka ??

 Hvað þá ef dómar skyldu falla Íslendingum í vil, nytum við HVERGI góðs af því !

 Það er verið að afsala okkur slíkum grundvallarmannréttindum, að annað eins hefur aldrei sést í lýðveldissögunni.

 Við höfum VAL - FELLA þETTA SAMKOMULAG !

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 22:43

6 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Auðvitað ættum við aldrei að vera í þeirri afleitu stöðu að vera ábyrg fyrir sukki og svínaríi útrásardrullusokkanna.  En eins afleitt og það er, eigum við engra kosta völ að mínu mati.... vegna margra rangra ákvarðana fyrri stjórnvalda og ekki hvað síst sjúklegri græðgi nokkurra Íslendinga.

Mitt kalda mat er það að 250-300 milljarðar og áframhaldandi samskipti við aðrar þjóðir sé betra en 1300 milljarðar og engin samskipti við umheiminn ef allt fer á versta veg.

En svo verðum við að láta þá sem ábyrgir eru...... stjórnendur bankanna.... axla ábyrgð á gjörðum sínum.  Við verðum að sækja þá til saka.

Anna Einarsdóttir, 20.10.2009 kl. 22:52

7 Smámynd: Haraldur Hansson

Það fellur enginn fyrir málfundaæfingum á þingi. Þar eru menn í leiknum stjórn vs stjórnarandstaða, það er ekkert nýtt í þeim efnum. Ég hef aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn og VG fékk mitt atkvæði síðast. Og í framhaldi af þessum inngangi: Ég get bar ekki verið sammála þér eða tekið undir þennan hræðsluáróður.

Það er sjálfsagt að semja um IceSave. Sá samningur sem nú liggur fyrir er óásættanlegur, eins og glögglega má sjá á afgreiðslu Alþingis frá því í ágúst. Þeir fyrirvarar sem nú á að draga úr eru ekki til að bæta stöðuna. Ég vil líta þannig á málið: Er samningurinn réttlátur, sanngjarn og viðráðanlegur? Svarið er nei, eins og heyra mátti í stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur um daginn.

Ef við göngumst ekki undir þennan samning getur það haft í för með sér óþægindi um stund, m.a. neikvæð viðbrögð ríkja innan Evrópusambandsins og áframhaldandi misnotkun Breta á AGS. En það verður tæplega langvarandi og ekki jafn slæmt og afleiðingar þess að beygja sig undir kúgunina. Ég blæs á allt tal um að við verðum einangruð.

Ef við hins vegar föllumst á samninginn erum við að skrifa upp á ábyrgð án úrskurðar að lögum, útgjöld sem eru miklu meiri en við ráðum við og slakari lífskjör. Traustið er ekki aukið með meiri lánum og þó við gætum skriðið inn í Evrópusambandið og eignast þar "vini" þá er engin gjöf án gjalda. Innan þess myndum við á tveimur áratugum fara í sama farið og hinar þjóðirnar, sem hvorki eykur líkur á hagsæld né hagvexti. Síðan mun fjarlægt vald á endanum verða okkur til tjóns.

Það á enginn maður að vera hræddur við að stand á rétti sínum. Í réttarríkjum 21. aldar á að fara að leikreglum samfélagins, en ekki láta undan þeim sem er stærri og sterkari. Sá sem hefur réttinn sín megin getur aldrei orðið minni máttar.

Haraldur Hansson, 21.10.2009 kl. 09:41

8 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Mikið er ég sammála þér Haraldur H. íslendingar eiga að leita réttar síns alveg óhikað. því eins og þú segir sá sem hefur réttinn sín megin getur aldrei orðið minni máttar. Og við almenningur algjörlega óháð flokkapólitík höfum ekkert gert af okkur . Maður fer ósjálfrátt að hugsa..afhverju samfylkingarmönnum er svona í mun að þjóðin borgi þetta....það er kannski búið að brjóta þetta fólk niður til hlýðni og það virðist vera að það megi ekki hafa skoðun..ég segi bara.. margur verður af aurum api..og vilja ekki láta af embætti vegna launa sinna þó vænhæfur sé í starfi og valdi meiri eyðileggingu en gagn er vanvirðing við sjálfan sig.

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 21.10.2009 kl. 10:00

9 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Að mörgu leyti er ég sammála þér Haraldur.  Er hins vegar nokkuð viss um að Bretar og Hollendingar telji okkur Íslendinga ekki hafa farið að leikreglum samfélagsins. 

Einkabanki "stelur" sparnaði þarlendra borgara og íslenska ríkið gerir nákvæmlega ekkert til að sporna við því.  Íslenskir ráðamenn einkavæddu bankana á kolrangan hátt og klúðruðu síðan algjörlega eftirliti með þeim.  Seðlabankastjóri, Davíð Oddsson og Fjármálaráðherra Árni Matthiesen hafa síðan sett nöfnin sín undir ábyrgð íslenska ríkisins á láni frá breskum og hollenskum stjórnvöldum.  Hvaða skilaboð erum við að senda heiminum ef við ákveðum að undirritanir seðlabankastjóra og fjármálaráðherra Íslands séu marklausar ?  

Það voru enn ein mistökin að fara ekki samstundis í mál við Breta þegar þeir settu hryðjuverkalög á okkur.  Þar er bæði við Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu að sakast. 

Eins hrikalega óréttlátt og það er, er almenningur á Íslandi í verulega slæmum málum vegna óstjórnar fyrri yfirvalda og hegðunar auðmanna.  Því hljótum við að krefjast þess að fólk sem tók þátt í því að skaða landið svo mjög, fólk eins og Davíð Oddsson, Þorgerður Katrín og Kjartan Gunnarsson, taki pokann sinn og þó fyrr hefði verið, og hundskist frá völdum.    

Við eigum líka að krefjast þess að eignir útrásardrullusokkanna verði FRYSTAR nú þegar.

Það var hægt að frysta smáaura flóttafólks í Keflavík í tíð Björns Bjarnasonar.  Fordæmið er fyrir hendi.

Anna Einarsdóttir, 21.10.2009 kl. 10:20

10 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Við hljótum að vera skildar, þetta er eins og úr mínum munni mælt.  Voruð þið Öddi frændi nánir vinir?

Mig langar að koma með sama kommentið á þetta og ég var með hjá bloggvinkonu þinni og nöfnu minni Hinriksdóttur.

Það er eins og sumir skilji ekki hvað lýðræði felur í sér, en gjörið svo vel og þú Kalli Sveins hefðir gott af því að kynna þér ræði sem kennt er við lýðinn.......:

Auðvitað eru allir á móti Icesave, er ekki alltaf ferlegt að þurfa að borga skuldir sínar,  vexti og vaxtavexti svo ég tali nú ekki um dráttarvexti.

Íslendingar hafa hagað sér eins og kjánar og við sem höfum verið alin upp við það að taka ábyrgð á gerðum okkar, skiljum það líka að við þurfum að bera ábyrgð á löglega kjörnum þingfulltrúum og stjórn.  Mér sýnist meira að segja við þurfum líka að bera ábyrgð á því sem þeir eða þau gera í einkalífinu. sbr kúlulán sem sumir tóku til að graðka meiru til sín en hin sauðsvarti almúgi hafði tök á að gera.

Íslendingar hafa ekkert lært af þessu og munu ekki gera, það sýnir fylgisaukning Sjálfstæðisflokksins mér.

Ég held að okkar leið til farsældar sé að gera upp við þetta gengi sem kom okkur í þessa stöðu, láta kúlulánafólkið sæta ábyrgð, borga skuldir sínar, það er ekki réttlátt að saklausir íbúðalánatakendur séu látin borga upp í topp, en einn aðaltalsmaður íhaldsins megi gapa hér og efast um heiðarleika þeirra sem eru þó að reyna að þrífa upp eftir hana og hennar meðreiðarsveina.

Í dag á ég mér þá ósk heitasta að mér renni reiðin til þessa kjaftagleiðu íhaldsmanna og aulahrollurinn hverfi yfir Framsóknarmönnunum sem fóru í leiðangur til Noregs að afla fjár og eigin frama.  Spurning hvort þeir trúi á jólasveinana. Þessi reiði mun ekki hverfa fyrr en ég sé þetta fólk þurfa í alvöru að axla ábyrgð .................

Ingibjörg Friðriksdóttir, 21.10.2009 kl. 11:13

11 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Við þetta vil ég bæta að mannfólkið er vant að moka flórinn og það skiptir ekki máli hvort það var Búkolla eða Ljómalind sem skeit....  Við mokum bara.

Ingibjörg Friðriksdóttir, 21.10.2009 kl. 11:15

12 Smámynd: Haraldur Hansson

Anna, við verðum að passa okkur á að refsa ekki fyrir lögbrot með öðru lögbroti. Hafi Íslendingar farið á svig við lögin réttlætir það ekki að Bretar hefni sín með því að ganga gegn leikreglum samfélags þjóðanna og misbeita aðstöðu sinni innan AGS. Svo ekki sé minnst á hryðuverkalögin.

Landsbanki Íslands:
Björgólfarnir hafa tekið út nokkra refsingu fyrir glannaskapinn. Það er búið að hirða af þeim Landsbankann, Straumur kominn í þrot og ýmsar eignir aðrar orðnar verðlausar. Björgólfur eldri hefur verið lýstur gjaldþrota og sá yngri er með bakið upp við vegg.

Mál þeirra eru til skoðunar hjá rannsóknarnefnd Alþingis og til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara. Hafi þeir gerst brotlegir við lög eiga mál þeirra (og annarra meintra sökudólga innan LÍ) að fara sína leið í dómskerfinu. Það er ekki nóg að kalla þá drullusokka til með mega frysta eignir, það þarf að vinna málin af fagmennsku. Annars er hætt við að þau falli á formgalla og hinir seku sleppi. Í því efni legg ég mikið traust á Evu Joly.

Hafi þeir gerst sekir um lögbrot, eins og allt bendir til, er það dómstóla að ákveða um viðurlög. Hvort sem það er með eignaupptöku, sektargreiðslum eða fangelsisvist. 

IceSave samningurinn:
Ríkisstjórninni var falið að gera samning. Gagnrýnin á Svavar er kannski meiri en efni standa til því nefndin fór ekki vel vopnuð í þann leiðangur. Ábyrgðin á samningunum liggur hjá ríkisstjórninni. Slíkir samningar eru alltaf með fyrirvara um samþykki Alþingis og því liggur ábyrgðin á afgreiðslunni hjá þinginu. 

Ef þessi samningur er vondur (sem hann greinilega er að mati þingsins) þá bætum við hann ekki með því að benda á ársgamalt minnisblað og segja að það hafi verið enn verra. Og þó svo að Davíð Oddsson hafi, embættis síns vegna, sett stafina sína undir plaggið, þá hafa minnisblöð og viljayfirlýsingar ekki lagagildi. Seðlabankastjóri og ráðherra hafa ekki heimild til að skuldbinda ríkissjóð til fjárútláta.

Ef minnisblöð hefðu lagagildi væri búið að bora hér 30 jarðgöng og reisa 20 álver. Að draga þetta ársgamla plagg inn í umræðuna er hluti af þetta-er-hinum-að-kenna röksemdinni, þar sem gert er út á óvinsældir seðlabankastjórans fyrrverandi.

Það er rétt hjá þér að pólitísk mistök, spilling, helmingaskipti, óstjórn og fleira úr fortíðinni er ástæða vandans. En það réttlætir ekki að við beygjum okkur undir kúgun og samþykkjum afarkosti. Lausnin verður að vera skikkanleg. Lestu stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, hún fer ekki í felur með að Ísland hafi verið órétti beitt og að samningurinn sé ósanngjarn.

Tvennt í lokin:
Það er ekki tilviljun að ESB er búið að semja nýja reglugerð um innlánstryggingar. Ástæðan er að sú eldri var gölluð og götótt. Það er því ekki eingöngu um að kenna glannaskap og meintum lögbrotum íslenskra útrásarmanna, hluti skýringarinnar liggur í gallaðri umgjörð. Þar liggur sekt ESB sem ekki má koma upp á yfirborðið.

Michael Hudson var nýlega í viðtali á bandaríska sjónvarpsþættinum On the Edge (er til á YouTube, nenni ekki að gúggla hann) og gagnrýndi harkalega kúgun sænskra banka gegn Litháum og þátttöku IMF og ESB í þeim skollaleik. Hann er spurður um Ísland og heldur blákalt fram að Gordon Brown fari fram með sams konar offorsi gegn Íslendingum. Hann kallar þetta kúgun í nýlendustíl. Í IceSave samningum er ekkert reynt til að draga þetta inn í málið þótt ærin ástæða sé til.

Og að endingu - takk fyrir ágæt skoðanaskipti.

Haraldur Hansson, 21.10.2009 kl. 12:55

13 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Takk sömuleiðis.

Ég vona að þú hafir rétt fyrir þér Haraldur og ég rangt.  Að við, saklaus alþýða Íslands, getum einfaldlega sagt nei við þeim gífurlega órétti sem Icesave vissulega er.  En mín skoðun er sú, því miður, að eftir undirritun Davíðs og Árna sé illmögulegt að vinda ofan af vitleysunni, án þess að skaða orðspor okkar varanlega.

Og í mínum huga er gott orðspor ómetanlegt. 

Anna Einarsdóttir, 21.10.2009 kl. 13:32

14 Smámynd: Haraldur Hansson

Það kostar vinnu að verja orðspor sitt. Það er okkar að leggja í þá vinnu. Því miður hefur núvernadi ríkisstjórn ekki lagt sig fram í því. Hvers vegna það er veit ég ekki en ég hef mjög óþægilega á tilfinningunni það í þessu öllu sé eitthvað svart leyndarmál sem þjóðin fær ekki að vita um.

En hér er þátturinn með Michel Hudson frá 16. október:

FYRRI HLUTINN er eingöngu um Litháen og skepnuskap Svía, AGS og ESB þar í landi.

SEINNI HLUTINN er mest um Ísland (byrjar á 1:45) eftir að Litháen spurningin er kláruð.

Þetta er stutt og skýrt. Hlustaðu endilega. Svo getur þú spurt þig hvers vegna fólk eins og Michael Hudson, Eva Joly, belgískir og breskir lögmenn og blaðamenn Financial Times halda uppi málstað Íslands, en ekki ríkisstjórnin.

Haraldur Hansson, 21.10.2009 kl. 13:44

15 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

fín myndin af Rauðhettu.

já, nú reyna Sjallar að eigna JoðHönnu allan ósómann og mæta með túttubyssurnar á þing. láta eins og vandræðapésar sem hafa enga mannasiði lært. hmm kannski það sé tilfellið

annars er JoðHanna ekki heldur yfir gagnrýni hafin, að hafa hækkað álögur í vor, á bús, bak og fleira, sem virðist aðallega hafa dregið úr neyslunni og skilað takmörkuðum tekjum, en hefur hækkað lánin okkar allra.

Brjánn Guðjónsson, 22.10.2009 kl. 03:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sparisjóður grínista og nágrennis.

 

Anna Einarsdóttir
Anna Einarsdóttir

  

Af gefnu tilefni skal það tekið fram, að allt sem ég skrái á þessa síðu er vel meint, þótt það á köflum geti hljómað eins og illa meint,, þá er það alls ekki þannig meint. 

Bankahólfið

Alltaf á Toppnum....

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 342763

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband