Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Það reddast.

 

Við lifum erfiða tíma á suma vegu;  Kreppa, Icesave, óréttlæti...... og ljúfa á aðra;  bongóblíða, fegurð Íslands, trú á réttlæti.

.

Icesave málið er svo stórt að mér finnst engan veginn hægt að taka einarða afstöðu.  Ekki veit ég hvað gerist ef við skrifum ekki upp á lánið.  Ekki veit ég heldur nákvæmlega hvað gerist ef við skrifum upp á lánið ?

Ljóst er að hvorutveggja eru afar slæmir kostir en hvor er skárri ?

Í augnablikinu hallast ég að því að við eigum að skrifa upp á vegna þess að ég óttast afleiðingarnar, gerum við það ekki.  Síðan eigum við að leggja ofuráherslu á að ná aftur peningum auðmannanna, þeim hinum sömu og settu okkur á hausinn og nýta þá peninga til að greiða niður skuldina.  Í öðru lagi eigum við einhverja von í olíuauðlindum.  Hugsanlega og mögulega mun það bjarga okkur.  Kannski er þetta dæmigerður íslenskur hugsanaháttur...... að þetta reddist einhvern veginn.  En ég er jú rammíslensk og ennþá stolt af því þrátt fyrir allt.

.

Sjálf ætla ég að taka mér smá hvíld frá blogginu.  (þegar ég gerði það í fyrra varð ég svo frjó í hugsun að ég gat ekki hætt að blogga)Pinch    Núna er ég í sumarfríi og reyni að njóta þess eins og best ég get.  Cool   Geri vonandi eitthvað svakalegt af mér,  sem bloggandi er um síðar.

.

Þangað til........ njótið dagsins því hann kemur ekki aftur.  Wink

.

Sir Alexandra 

.

.


Þegar sálin er yngri en líkaminn.

 

Ég fer að nálgast hálfa öld
og upplifi brátt ævikvöld
en samt í anda ung
farin er að láta á sjá
en áður en því kjafta frá
ég augað dreg í pung

......... og segi ekki orð !  Happy

.

middle-age-depression

.

 

Mér finnst svo óraunverulegt að vera 45 ára en líða alltaf eins og ég sé 29 ára.

Er að reyna að venja mig við þá hugsun að einhvern tíma hætti ég að vera unglingur.  FootinMouth 

Þótt ég viti ekki alveg hvenær það gerist.

.



 


Eru tölurnar komnar frá tryggingafélögunum ?

 

"Tjón á bílum vegna umferðaróhappa að meðaltali 41% færri fyrstu fimm mánuði þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra".  segir í meðfylgjandi frétt.

.

Það skyldi þó ekki vera svo að fleiri séu að lenda í því sama og mín fjölskylda og að tjónum hafi í raun ekki fækkað svona mikið heldur séu tryggingafélögin að koma sér undan þeim ?

Tryggingasvik tryggingafélagsins  !

.

Eftir að hafa greitt stórar fjárhæðir til tryggingafélaga og verið nánast tjónlaus í gegnum tíðina, gerist þetta;

Tengdadóttir mín lendir í því að bifreið hemlar snöggt fyrir framan hana og hún ekur aftan á.  Hún er á stórum jeppa með breyttum stuðara, sérstyrktum.  Stuðarinn gengur inn í bílinn sem þýðir að höggið er töluvert.

Á staðinn mæta tjónaskoðunarmenn, taka myndir og spyrja hana hvort bíllinn sé í lagi, þ.e. ökufær ?

"Það held ég" segir hún og bætir síðan við "en ég hef annars ekkert vit á bílum".  Þeir athuga ekkert sjálfir.

Hún ekur heim, örstutta vegalengd en þá fer bíllinn að hita sig.  Sonur minn ekur bílnum daginn eftir til Toyota.  Hann stöðvar bílinn þrisvar á leiðinni til að kæla hann.  Viðgerðarmaður sem tekur á móti bílnum segir að líklega hefði vatnið spýst inn á vélina við höggið, enda vantaði 5 lítra af vatni á bílinn.   Nú er bíllinn óökufær. 

Tryggingamiðstöðin neitar að bæta skaðann nema það sem er sjáanlegt utaná bílnum !

Bíllinn er í kaskó og í reglum tryggingafélagana stendur að lendi bíll í tjóni skuli eigandi hans fá bílinn til baka í sama ástandi og hann var fyrir tjónið.

Tryggingafélagið segir að það sé okkar að sanna að bíllinn hafi bilað við áreksturinn.  Þeir vita ekki einu sinni nákvæmlega hvað er að bílnum..... hvort það er gat á vatnskassa, heddpakkning, heddið, eða eitthvað annað.

Nú er málið í lögfræðingi.

Mundu að;

Ef þú tryggir hjá TM þá færðu það EKKI bætt.

Og að samband við TM verður verra með tímanum...... uns þú slítur því.


mbl.is Tjón á bílum um 40% færri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Báturinn pissaði.

 

Í hádeginu í gær lagði ég bílnum fyrir utan Landnámssetrið, gekk að grjótgarði við sjóinn og fór í það sem kalla mætti innhverfa íhugun.

Fuglarnir sungu, sjórinn var spegilsléttur og bátur lá við festar undir brúnni út í Brákarey.

.

201250364_b31121f742 

.

Ég er rétt að komast í innhverfuna þegar báturinn skyndilega pissar !

Ok, hugsa ég með mér.  Það hlýtur einhver að vera um borð að vaska upp og hefur tekið tappann úr vaskinum.

Sit ég síðan áfram og íhuga. 

Eftir mínútu gerist það aftur !  Báturinn pissar.  Bunan stendur í fallegum boga út á sjóinn, bakborðsmeginn, rétt aftan við stýrishús.

Mínúta líður og enn pissar báturinn.   Og aftur...... og aftur..... og aftur.

Það er ómögulegt að skýringin finnist í uppvaski einhvers sjómanns.  Fyrir það fyrsta sá ég engan um borð og hver vaskar líka upp fjórtán sinnum í röð ?

Mig langar að vita;   Hvers vegna pissa bátar ?

Og er ekki líklegt að hann sé með blöðrubólgu ?

.


Snilld í kreppu.

 

Hér kem ég með alveg brilljant ráð til ykkar, þótt ég segi sjálf frá.  Það er reyndar alveg jafn brilljant ef einhver annar segir frá því.  Joyful

.

Um daginn fór ég í Húsasmiðjuna og keypti mér ryksugu.  Sú gamla var orðin alveg kraftlaus og ekki er hægt að vera ryksugulaus þegar maður býr nánast í dýragarði.

.

T1505-1 

.

Síðan gerist það strax í kjölfar kaupanna að ég er að heiman í eina viku en móðir mín sér um heimilið á meðan.  Þegar ég kem heim segir hún mér að hún hafi hreinsað einhver sigti í ryksugunni gömlu og að nú sé hún allt önnur !

Úps.    Líklega þurfti ég þá ekki að kaupa ryksugu.  Fljótfærni ! 


Því fer ég og skila henni aftur í Húsasmiðjuna enda er gripurinn enn í kassanum.

Nú fer að koma að skemmtilega hluta sögunnar.  Happy

.

Næst fer ég í Húsasmiðjuna og kaupi málningu á alla glugga hússins, sem og pensla.  Staðgreitt með inneign. 

Í dag fer ég enn í Húsasmiðjuna og kaupi plötur á húsið í stað annarra sem voru farnar að vinda upp á sig.  Oregon pine takk fyrir.  Wink  Ekkert slor enda dugir slor ekki á hús.  Ennþá er til inneign.  Þá er keyptur grunnur á nýju Oregon pine plöturnar og þrír nýjir penslar.

Guess what !   Staðan er sú að enn er inneign og nú er ég að hugsa hvað mig vanti fyrir afganginn ?  Kannski ryksugu ?  LoL

.

Framvegis ætla ég að stunda að kaupa einhvern óþarfa og skila honum síðan.  Best er að hafa það eitthvað svolítið dýrt.  Og svo er næstum endalaust hægt að kaupa það sem mann virkilega vantar út á inneignarnótuna.

Það hljóta allir að sjá að ryksuguræfill er miklu minna virði en viðhald og málun á húsi.

Ég stórgræddi !!! 

 


Hvers vegna að kvíða því sem kannski aldrei gerist ?

 

Þegar ég les netið í dag, finnst mér fyndnast að þann 15. september s.l. vissi ég ekki einu sinni hvað Icesave var !  LoL

Það er auðvitað svo kjánalegt að ég segi það ekki nokkrum manni.

.

En annars veit maður ekki hvort það er við hæfi að spauga þessa dagana.  Óvissan um framtíðina er slík að maður veltir því fyrir sér hvort rétt sé að hamstra hveiti ?  Og Ora grænar baunir.

.

2241962938_8a0d2bdaf5 

.

Ég hef ákveðið að lifa þannig að ég læt hverjum degi nægja sína þjáningu.  Nei, ég nýt hvers dags er réttara að segja.  Hvers vegna að kvíða því sem kannski aldrei gerist ? 

Hugsanlega óábyrg hegðun en það verður svo að vera.  Ég tel nefnilega að reiði sé afar óholl og að maður geti hreinlega orðið veikur í kjölfarið á mikilli reiði.

Ég vona bara að við Íslendingar berum gæfu til að leysa málin friðsamlega.

Við höfum tapað miklum peningum, orðspori okkar erlendis og trausti á ýmsum stofnunum innanlands.

Við skulum reyna að halda í það sem við enn eigum....... friðinn.  Heart

.

En ég vil samt frysta eigur helvítis útrásarvíkinganna.  W00t

.


Hvað skal til bragðs taka ?

 

Ég reif upp njólahelvítið og setti síðan gróft salt í sárið.  Gamalt húsráð.

.

 plan_0012L

.

Þá sagði njólinn;

Það er nú óþarfi að strá salti í sárið !!!

.

Og nú velti ég fyrir mér..... FootinMouth...... á ég kannski að sleppa saltinu ?

.


NEI NEI NEI !!!

 

Önnur fréttin sem ég rekst á, á stuttum tíma um ný Hvalfjarðargöng.

Ég segi NEI TAKK !

Þar sem ég bý á Vesturlandi og ferðast stundum til Reykjavíkur, á ég hagsmuna að gæta.  Hef borgað hundruðir þúsunda í Hvalfjarðargöngin okkar og allt í lagi með það.

En það er engin þörf á nýjum göngum og fólkið vill bara alls ekki fara að borga þúsundkall eða þaðan af meira aftur til að komast í höfuðstaðinn.  Ekki fólkið sem ég þekki.  Og ekki ég, sem ég þekki líka.  Woundering

Það gerist kannski þrisvar á ári að maður þarf að bíða í mínútu eða tvær við gangnaendann.  Ekkert sem skiptir nokkru einasta máli. 

Ef lífeyrissjóðirnir vilja ávaxta aurana sína - en ég var einmitt að lesa í Vikunni að yfirmaður lífeyrissjóðs hefði fengið stór lán úr sjóðnum, hirt vextina og skilað síðan höfuðstólnum sem kemur kannski ekki málinu við en þarf að rannsaka sem sakamál og það strax - geta þeir gert það á einhvern annan hátt en á kostnað almennings.

EKKI ÖNNUR HVALFJARÐARGÖNG !!!  Við eigum göng nú þegar.

OG HANANÚ. 

.

Mynd_0002255 

.


mbl.is Stór verk í einkaframkvæmd?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt fullt af fíflum.

 

Einhvern tíma var sagt við mig að maður ætti alvarlega að íhuga sinn gang þegar allt væri fullt af fíflum í kringum mann.

.

Það ER allt fullt af fíflum í kringum mig.  Frown

 

Gjörsamlega yfirfullt af bévítans fíflum.  W00t

 

.

 

 

.

 

 

.

 

.

 

garður

 

.

Ég ætla að íhuga minn gang.

.

 


Næsta síða »

Um bloggið

Sparisjóður grínista og nágrennis.

 

Anna Einarsdóttir
Anna Einarsdóttir

  

Af gefnu tilefni skal það tekið fram, að allt sem ég skrái á þessa síðu er vel meint, þótt það á köflum geti hljómað eins og illa meint,, þá er það alls ekki þannig meint. 

Bankahólfið

Alltaf á Toppnum....

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband