Tveir fyrir einn tilboð......skák og félagsvist.

 

Bloggvinir mínir mega vart vatni halda fyrir spenningi yfir skákmóti bloggvina með tattoo.  Þeir sofa ekki á nóttunni einusinni.  Ég hins vegar svaf eins og ungabarn í tjaldi í nótt og mun, með þessu áframhaldi koma mun betur andlega undirbúin á mótið - og taka þá í nefið,  annaðhvort á sálfræðinni eða yppon... fer eftir ýmsu.

 

Nú hef ég hugsað mér, þar sem ég verð komin til Reykjavíkur hvort sem er, að gera aðeins meira úr ferðalaginu.  Eftir hraðskákmótið er ákveðið að taka nokkra hringi í félagsvist.  

 

poker%20cards

 

Kristjana mun vinna skákmótið, deffenatlí, af því að hún er langsætust. 

Ég ætla hins vegar að vinna félagsvistina Grin af því að ég er ákveðin í því. 

 

Það skal tekið fram að einungis þátttakendur í skákmóti bloggara með tattoo, fá að spila með.  Klíkuskapur og ekkert annað. Tounge

 

Síðar meir,  þ.e. einhvern annan keppnisdag, má athuga með 100 m. hlaup sem mér skilst að Brattur sé spenntur fyrir......... eða kosningaslag fyrir Ægi..........já eða rauðvínssmökkunarkeppni með Halldór í huga.  

Sjáum til !


AUGLÝSING.

 

Þann 21. september 2007 klukkan 20.30, verður haldið fyrsta mót skákfélags bloggara með tattoo.

 

chess

 

 

Þetta var ákveðið á formlegum fundi, sem stóð langt fram á nótt, enda að mörgu að hyggja við skipulagningu svo viðamikils mót.

 

Kristjana blómarós er talin lang-sigurstranglegust, þar sem strákarnir munu alveg gleyma skákinni og fálma eitthvað út í loftið með hana sem mótherja.  Afar líklegt þykir að þeir felli kónginn með fálmurunum og þá er hún að sjálfsögðu búin að vinna !

 

Brattur Ástríkur Rugludallur Kexlákur Sultukrukka sýndi sig að vera mesta frekjudollan í hópnum, valtaði yfir okkur hin og skipaði sjálfan sig hlutdrægan dómara í mótinu.  Hann hefur þegar veðjað á sjálfan sig sem sigurvegara og heldur auk þess með Ægi.

  Ekki af því að Ægir sé eitthvað góður í skák - hann hefur enga tendensa í þá átt sýnist mér.  Nei, Brattur heldur með honum af þeirri lúsarlegu ástæðu að Ægir studdi hann í dómarasætið.  Ægir á litla möguleika á sigri þar sem hann er alveg úti á túni að tjalda - og það í september.

 

Ég sá mig tilneydda til að grípa til óyndisúrræða.  Um leið og ég sá heiðarlegt andlit á fundinum, Halldór, skipaði ég hann eftirlitsdómara, við nákvæmlega enga kátínu Bratts Ástríks Rugludalls Kexláks Sultukrukku sem nánast fór að skæla á staðnum. 

 

Til að rífa hann upp úr andlegri eymd, leyfðum við honum að velja sér dómarabúning.  Fyrir valinu varð hefðbundin dómarabúningur;  svartar stuttbuxur og bolur með númer 1. á bakinu, auk hvítra sokka.  Brattur leggur að sjálfsögðu af stað heiman frá sér í svörtum sokkum, því litla klára konan hans vill ekki að hann sé alger smekkleysa......... en svo skiptir hann um sokka á leiðinni.

 

Rökstuddur grunur er fyrir því að Arnfinnur muni smygla sér inn á mótið, því allsstaðar þar sem eru stelpur, þar er Arnfinnur.  Hann stendur einmitt núna á hliðarlínunni á einhverju fótboltamóti og þykist hafa vit á fótbolta - en er í raun að skoða mömmurnar.

 

Verðlaun í skákmóti skákfélags bloggara með tattoo verða ekki af verri endanum:  

1. verðlaun  TATTOO

2. verðlaun  Húrrahróp og klapp

3. verðlaun  Klapp

 

Tekið er við skráningum á snilld007@hotmail.com  og verður staðsetning mótsins nánar auglýst síðar.  Skilyrði fyrir þátttöku er að viðkomandi kunni mannganginn, hafi tattoo daginn sem mótið fer fram og sé bloggvinur.  Keppnisgjald er kr. 2000,- eða meira.

 

F.h. Skákfélags bloggara með tattoo,

Anna Einarsdóttir, formaður.

 

 

 

 


Stríðinn.

 

Fyrrverandi tengdafaðir minn var mjög stríðinn eins og ég hef áður komið inn á.

Eitt sinn átti hann í rökræðum við mann, sem staddur var í Ólafsvík, á vörubíl með fullfermi af möl.  Tengdó var staddur í Borgarnesi. 

Þá greindi á um hve mikið bílfarmurinn vóg.  Eftir nokkrar þrætur um þyngd hlassins, sagði tengdó:

"En þú veist að það er mælt í Farenheit hér en Celsius þarna" ?

Hinn, snöggur upp á lagið og þóttist yfirleitt vita allt, hnussaði;

"Já, veit ég vel, veit ég vel,  en ég er samt viss um að þyngdin er rétt hjá mér" !

 

escalatemp

 

 


Ó Tinni, elsku Tinni minn.

 

Sem einlægum Tinna-aðdáanda er mér nú brugðið.

Skv. Fréttablaðinu í dag er búið að senda Tinna í Kongó í útlegð !

 

congo

 

Þegar ég var krakki og unglingur, voru nokkur atriði sem þurftu að vera í lagi svo að jól væru jól.  Það þurfti að vera hangikjöt í matinn, (sem oftast) nammi í seilingarfjarlægð og Tinnabækur í jólagjöf.  Ég fékk alltaf eina Tinnabók og bróðir minn aðra. 

Því hef ég drukkið í mig Tinnabækur eins og ég drakk "kaffisykurbrauðogmjólk" hjá ömmu.

Ástæðan fyrir úthýsingu Tinna í Kongó,  er sögð vera sú að "bókin lýsi íbúum Kongó sem fáráðum sem í einfeldni sinni geri hund að kóngi".  Því þyki bókin uppfull af kynþáttafordómum.

Halló !  Er ekki verið að brjóta dýraverndunarlög hérna ?

Nú stend ég fast á því, að farið sé fram á sönnunarbyrði í málinu.

Ég heimta semsagt greindarvísitölupróf á alla íbúa Kongó.  Kannski eru þeir bara fáráðar ? 

Og kannski var hundurinn besti kosturinn ?


Klukkuð af Halldóri og hrossinu í haganum.

 

Nú hef ég verið klukkuð tvisvar svo ég get ekki skorast undan og verð að segja átta atriði um mig.  Ætla að upplýsa ykkur um ýmislegt sem þið ekki vissuð um mig. Wink

  1. Ég er Snæfellingur
  2. Ég kann að tefla
  3. Ég fékk mér tattoo í fyrra
  4. Ég er 43 ára
  5. Ég er Bifrestingur
  6. Ég er 1,67 á hæð
  7. Ég er með brúnt hár
  8. Ég er að drepast úr hógværð.   NOT ! LoL  ok, þetta var ekki að marka.

    8....Ég er fjármálastjóri

 

Og svo hleyp ég af stað og klukka 8 aðila og held svo áfram að bulla.

 


Hvernig ætli það sé ?

 

Jæja krakkar.

Erum við annars ekki öll krakkar ?

Einn minn besti vinur í þessu lífi, var briddsfélagi minn til 11 ára.  Hann var tæpum fjörutíu árum eldri en ég og mér fannst hann alltaf vera strákur.  Smile  Við spiluðum saman einu sinni í viku og spjölluðum svo um spilin, lífið og tilveruna, oftast tveimur dögum síðar.  Á milli okkar féll aldrei styggðaryrði.  Oft þegar við vorum að kynna okkur fyrir ókunnugum bridgespilurum, þá sögðum við "við systkinin" því við bárum sama föðurnafn.  Það var stundum óborganlegt að sjá svipinn sem kom á mótspilarana. LoL

Ég er stundum að velta því fyrir mér hvort ég vakni einhvern daginn, orðin kjéddling ?  Það þætti mér að sumu leiti fyndið - en bara að sumu leyti.  Mér finnst ég alltaf vera stelpa.  Kannski tvisvar á ári kona og af og til eins og strákur.  

Hvað ætli fólki finnist þegar það er orðið aldrað, í árum talið ?

 

old-couple-parc.vga

 


Galdraþulan mín.

 

Brattur bloggvinur minn er í miklu uppáhaldi hjá mér. Smile

002_2A

(ææ, pínulítil mynd..... jæja)

Við Brattur höfum sama aulahúmorinn sko. LoL   Hann er ógurlega góð sál þessi maður og sér gjarnan annan vinkil á hlutunum - sem mér finnst skemmtilegt og þroskandi.... og ekki veitir mér af örlítið auknum þroska.   

Brattur samdi eftirfarandi galdraþulu fyrir mig.  HeartSmile

 

Galdraþulan hennar Önnu.

úr auðninni
kemur sálin
sem þú átt að sættast við

með vindinum
kemur málið
sem þú átt að læra

með regninu
kemur vatnið
sem andlit þitt þvær

úr sjónum
kemur marbendill
sem þig frelsar

og þá
og loksins þá
ertu tilbúin
að takast á
við lífið

en aldrei gleyma
nei, aldrei, aldrei gleyma

að þú átt þig sjálf


Slagsmálaspillirinn.

 

Seint myndi ég teljast góður efniviður í öryggisvörð eða laganna þjón, enda ekki nema fimmtíuogeitthvað kíló.

Þegar ég var um tvítugt, var ég að vinna í heildsölu í Reykjavík ásamt tveimur eigendum fyrirtækisins.

Annar þeirra var vel þybbinn.

Eitt sinn, er ég hafði verið að skemmta mér á pöbbnum á Hverfisgötunni og hafði innbyrt eitthvað af bjórlíki, brá svo við þegar ég gekk út á götu að tveir menn voru í slagsmálum þar.

Annar sat ofan á hinum og ég sá framan í hvorugan.  Sá samt spik á þeim sem var undir. 

Stundum hugsa ég hratt.  Og stundum OF hratt.

Ég ákvað á svipstundu að maðurinn sem lá í götunni, þessi með spikið, væri yfirmaður minn.

Fáránlegt því ég hafði aldrei séð hans keppi. Blush 

Einhver varð að bjarga manninum, fannst mér.

Ég stökk af stað og greip hinn manninn hálstaki og svipti honum af "yfirmanni mínum".

Þegar því var lokið sá ég mistökin sem ég hafði gert.  Ég þekkti hvorugan manninn. Errm

Þeir urðu svo undrandi á þessari óvæntu árás stelpunnar, að þeir hættu að slást !

Ekki reyna að leika þetta eftir samt.  Grin


Gauksi.

páfagaukur_1762300969

 


Lára fór inn í gæludýrabúð og rak strax augun í glæsilegan páfagauk sem
kostaði 5.000 krónur.


 "Af hverju er hann svona ódýr?" spurði Lára.
Búðareigandinn leit á hana og sagði:,,Sko, málið er að þessi páfagaukur
hefur verið í mörg ár í vændishúsi og getur verið ansi orðljótur. Hreint
hroðalega. Þess vegna er hann á útsöluprís."


 Lára ákvað samt sem áður að kaupa gauksa, fór með hann heim og hengdi
búrið upp í borðstofunni. Fuglinn  leit í kringum sig, síðan á Láru og
sagði: "Nýtt hús, ný húsfrú."   Konunni varð brugðið en fannst þetta
síður en svo ljótt orðbragð.

 

Nokkru síðar komu dætur Láru heim úr háskólanum og fuglinn sagði um leið: "Nýtt hús, ný húsfrú og nýjar hórur". Stelpurnar urðu dálítið móðgaðar en byrjuðu svo að hlægja að þessum fyndna fugli.

 

Augnabliki síðar kemur eiginmaður Láru heim úr vinnunni. Páfagaukurinn leit á hann og sagði: "Hæ Helgi" !


Leyndarmálið mitt.

 

Nú ætla ég að segja frá leyndarmáli sem ég komst að nýlega. Wink

Hver maður á ekki nema 22 ráð !

Rökstuðningur;  málshátturinn "að hafa ráð undir rifi hverju".

Og teljið þið svo.

 

rifbein_231106

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sparisjóður grínista og nágrennis.

 

Anna Einarsdóttir
Anna Einarsdóttir

  

Af gefnu tilefni skal það tekið fram, að allt sem ég skrái á þessa síðu er vel meint, þótt það á köflum geti hljómað eins og illa meint,, þá er það alls ekki þannig meint. 

Bankahólfið

Alltaf á Toppnum....

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband