Er svo heppin með bloggvini.

 

Ég er heppnust í heimi með bloggvini. 

Kristjana bloggvinkona gaf mér undurfagurt ljóð í nestið.

.

kristjanag 

.

Brattur bloggvinur gaf mér annað frumsamið ljóð svo ég er með fullan bakpoka af fögrum orðum.

.

gisli_8711

.

Ég er alveg undrandi og mun brosa niður allar flúðirnar...  Grin.... jafnvel flissa.

.

Á morgun hitti ég svo Björgu bloggvinkonu.  Hún er sko stelpa sem mig langar að kynnast.

.

picture_0117_164179

.

Það er svo gaman að vera til !     

 


Gísli, Eiríkur og Helgi.

 

Fyrst ég er á annað borð farin að játa eldgamlar syndir mínar, ætla ég að bæta aðeins við. Blush

.

massinn

.

Ég er satt að segja orðin svo háöldruð, að það var sveitasími heima hjá mér þegar ég var krakki.  Tvær langar og ein stutt.  Það segir sig því sjálft að á tímum lítillar tækni og svart-hvíts sjónvarps með nánast engu barnaefni, utan Stundarinnar okkar, þurftum við krakkarnir að finna okkur eitthvað til dundurs.  Við vorum orðin býsna góð í því held ég. 

.

Einn fallegan sumardag þegar við vorum um 14-15 ára gamlar, ákváðum við vinkona mín að gera eitthvað verulega skemmtilegt.  Við klæddum okkur í föðurland og ullarbol og ekkert utanyfir það, settum á okkur ljótustu húfur sem við fundum og hringdum svo í stelpu á nágrannabæ sem var allnokkuð eldri en við og boðuðum hana á okkar fund - á traktor.

.

Hún mætti nokkru síðar og við tjáðum henni fyrirætlan okkar.  Hún átti að keyra um sveitir Miklaholtshrepps.... og þá sérstaklega oft framhjá Vegamótum..... en við ætluðum að sitja báðar ofan á húddi dráttarvélarinnar, snúandi baki hvor í aðra, í þessum ósmekklega klæðnaði og þykjast vera Gísli, Eiríkur og Helgi. 

.

Þetta gerðum við, vöktum mikla athygli allra sem til sáu og skemmtum okkur alveg hreint konunglega.   Það fór lítið fyrir skvísustælum hjá okkur vinkonunum.  Joyful

 


Æskuminningabrot.

 

 

Sæmundur bloggvinur minn og fyrrum nágranni, kom með skemmtilega sögu af syni sínum og bróður mínum.  

.

Bróðir minn:  "Pabbi fór niður í Straumfjarðará og veiddi svo stóran lax, að hann gat ekki lyft honum".

Sonur Sæmundar:  "Iss" !  "Það er nú ekki mikið.  Pabbi fór að veiða upp í Baulárvallavatni og veiddi þrjá stóra silunga og tvö skrímsli".

.

Að alast upp með þessum strákum, var alveg ómetanlegt.  Oft bakaði ég drullukökur á þessum árum.  Stundum fór ég til mömmu og bað um smá sykur og kakó.  Ef vilyrði fékkst fyrir því, setti ég herlegheitin saman við mold og vatn, formaði fallega köku sem ég skreytti síðan með Sóleyjum eða Fíflum.  Svo borðuðu strákarnir kökuna.  Grin   Ekki veit ég til að þeim hafi nokkurn tíma orðið meint af því.

.

Við gerðum ýmsar tilraunir á þessum árum.  Ég man að við settum kindaspörð í Opalpakka og buðum gestum og gangandi.  Einnig pissaði ég einhvern tíma í Sinalco flösku og bauð sopa.

.

sinalco_3_f_hf3

 

Við krakkarnir fórum snemma að stunda viðskipti ýmiss konar, þar sem við vorum svo heppin að búa við hliðina á veitingastað/verslun á Vegamótum.  Nánast daglega, á sumrin, stoppuðu rútur þar, fullar af útlendingum.   Það kom oft fyrir að útlendingarnir gáfu okkur pening, sökum þess að klæðnaður okkar minnti helst á aumingja.  Við vorum fljót að sjá að það borgaði sig að vera illa til fara.  Ef það dugði ekki að standa þarna með aumingjasvip,  týndum við Fífla og Fífur og seldum útlendingunum.  

Gróðinn fór undantekingalítið í sælgætiskaup.

.

Þrátt fyrir að búa ekki á sveitabæ, var dýralífið fjölskrúðugt hjá okkur.  Heima hjá mér voru kettir og hænur.  Sæmundur nágranni átti Lassýhund.  Oft lékum við okkur með mýsnar, bjuggum til holu handa þeim og gáfum þeim að borða.  Þær hins vegar drápust oftast, að ég held úr hræðslu.  Kindurnar í Straumfjarðartungu voru sko ekkert venjulegar kindur.  Við stunduðum það að gefa þeim matarkex.  Þær voru æstar í matarkex.   Það kom oft fyrir að kindurnar örkuðu inn á Vegamót, ef útidyrahurðin stóð opin.  Skemmtilegur svipur sem kom alltaf á ferðafólkið, þegar það fór á klósettið og mætti rollu á leið út af klósettinu.  LoL

.

Sökum þessarar ágengni kindanna, voru sett skýr fyrirmæli um að passa alltaf að loka "sláturhúsinu".  Sláturhúsið hafði einu sinni verið sláturhús og nafnið var pikkfast á húsinu þrátt fyrir að á þessum tíma hafi húsið hýst lager.  Á lagernum var geymt allt gos og sekkjavara.  M.a. kögglar sem kindurnar voru sólgnar í.  Það kom einu sinni fyrir að rolla lék á mig.

Hún hlýtur að hafa falið sig á bakvið goskassana og beðið þar til ég er farin.  Þá fer hún og étur köggla, viðstöðulaust, þar til einhver á leið í sláturhúsið næst.  Þegar að var komið, var rollan orðin svo útþemd að það var vandkvæðum bundið að koma henni út um dyrnar.  Mig minnir þó sterklega að hún hafi lifað kappátið af.  En ég skammaðist mín.

.

Við lékum okkur líka mikið við frændfólk mitt frá Dal.  Einu sinni sáu þau, í kíki held ég, að sveitungi okkar einn hafði hægðir á holti einu.  Eftir það var holtið aldrei nefnt annað en Dritholt.  

.

Systir mín er fædd á Jóladag.  Þegar ég var lítil, spurði ég hina krakkana: 

"Verður hún þá Jesú þegar hún verður stór" ? 

.

Já, svona var maður nú vitlaus einu sinni.  Smile

 

 


Bloggfærslur 12. ágúst 2007

Um bloggið

Sparisjóður grínista og nágrennis.

 

Anna Einarsdóttir
Anna Einarsdóttir

  

Af gefnu tilefni skal það tekið fram, að allt sem ég skrái á þessa síðu er vel meint, þótt það á köflum geti hljómað eins og illa meint,, þá er það alls ekki þannig meint. 

Bankahólfið

Alltaf á Toppnum....

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband