Hrekkur.

Tengdafaðir minn fyrrverandi var mjög merkilegur maður.  Hann var orðheppinn, snjall sögumaður og mjög hrekkjóttur auk þess sem hann hafði mikla söluhæfileika.  Svo hrekkjóttur var hann, að þótt hann væri búinn að stríða barnabarni sínu, einsoghálfsárs gömlu, svo mikið að hún var farin að gráta, sá hann ekki ástæðu til að hætta að stríða henni.  Einu sinni, þegar hann var bara ungur strákur, ákváðu hann og annar að hrekkja mann einn í Borgarnesi.  Sá vandi komur sínar á útikamar, yfirleitt um svipað leyti daglega.  Þeir ákváðu að splassa aðeins uppí rassinn á karli.  Settu dínamít í kamarinn og biðu svo í leyni bakvið stein.  Kemur svo karlinn og þeir kveikja á nokkurra metra löngum þræðinum.  Eitthvað var þráðurinn lengi að brenna því karlinn kláraði sig af, hefur blessunarlega haft góðar hægðir, og var rétt genginn út af kamrinum þegar eldurinn náði í dínamitið.  BÚMMMM.  Kamarinn sprakk hreinlega í loft upp.   Smá mistök í útreikningi á virkni dínamits hjá peyjunum. Sideways

Veit þetta einhver ?

Það skemmtilega við lífið er að maður er alltaf að upplifa eitthvað nýtt.  Í dag gerðist dálítið, frekar furðulegt.  Ég þurfti að hringja í konu í ónefndu fyrirtæki og biðja hana að senda mér dálítið í tölvupósti.  Svo leið og beið og leið aðeins meiri tími og loks kom hún aftur í símann.  Hún spurði um meilið mitt og ég byrjaði "anna" ... ha sagði konan.... anna@.... hvað segirðu ?  ANNA.... hálfhrópaði ég.  Þá sagði hún þessa fleygu setningu:  "Og hvernig er það stafað" ?   Hahahahahaha...... nú reynir á alla heimsins fræðinga í íslenskri tungu.  Hvernig er hægt að stafa nafnið Anna vitlaust ?  Ég óska eftir tillögum. Joyful

 


Gáfu skít.

Í dag sló tímaklukkan hjá mér 43 ding.  Skrítið !  Það styttist þá væntanlega í að ég verði keddling. LoL  Fyndið.  Það var samt ekki mikið um hátíðahöld í dag.  Hestarnir gáfu meira að segja skít í mig og þá meina ég skít út um allt.  Þeir eru svo vel gefnir þessar elskur, sáu sér leik í hesthúsi og laumuðust út um hliðardyr á stíunni sinni.  Svo völsuðu þeir um allan fóðurganginn og hafa, sýndist mér, farið í skítakeppni.  Það tók mig langan tíma að koma húsinu í rétt horf.  Vill bara svo vel til að skítmokstur er á við góðan sálfræðing og ég bara mæli eindregið með því að fólk moki skít að jafnaði einu sinni í viku.  Í keppninni skipaði ég sjálfa mig dómara og dæmdi litförótta hestinum sigurinn.  Ekki vegna þess að ég sæi mun á skít og skít.... heldur fannst mér hann sýna afar góða takta þegar hann skokkaði aftur inn í stíuna sína og þóttist saklaus af subbuganginum á ganginum. Grin 


It's now or never.

Ég vaknaði fersk eins og sítróna rétt í þessu.  Í dag er nefnilega að renna upp dagurinn sem ég hef verið að bíða eftir....... tækifæri lífs míns.  Ég verð í BEINNI Á SÝN !   Nú mun ég pottþétt og handvisst renna út eins og heit lumma Grin .   Mín fyrsta hugsun þegar ég opnaði augun var "í hverju á ég að vera"?  Þar sem ég kem til með að sitja mestan hluta af útsendingunni, er í lagi að vera í stuttbuxum, nú eða gallabuxum.   Svo ætla ég að vera í gráu peysunni minni með vösunum á hliðunum, þeim hinum sömu og síminn stakk sér úr.  Þar fyrir innan verð ég í græna bolnum mínum sem á stendur ÁFRAM BORGARNES.  Undirfötin verða leyndarmál að svo stöddu. Wink   Dagurinn fer svo auðvitað í æfingar og bros fyrir framan spegilinn.  Mjög líklegt er að ég sitji í annarri sætaröð, aðeins vinstra megin við miðju á leik Skallagríms og Grindavíkur. 

Aðeins of sein.

Það er alveg stórmerkilegt með þennan tíma.  Hjá sumum líður hann ógurlega hægt meðan hann flýgur áfram hjá öðrum.  Finnst einhverjum þetta sanngjarnt ?  

Þetta kom illa niður á mér í dag.  Fór með bílinn minn í smur.  Ég var víst komin eitthvað örlítið fram yfir á smurbókinni.  15.000 kílómetra eða eitthvað svoleiðis.  Það skýrist auðvitað alfarið af því hvað tíminn leið hratt frá því síðast þegar ég fór með bílinn í smur. Undecided

Ef ég væri þingmaður, myndi ég setja fram þingsályktunartillögu um jafnan tíma á alla.  Þá myndu þeir sem hefðu yfirdrifið nægan tíma gefa eitthvað af sínum tíma til þeirra sem þjást af tímaskorti. 

 


Utan þjónustusvæðis....

 

Það getur valdið manni skaða að fara á klósettið !  Það henti mig á dögunum.  Þannig var að ég fór að pissa einn daginn, sem ég reyndar geri daglega. Pinch   Ég var um það bil að standa upp þegar síminn minn tekur sig til, hoppar uppúr peysuvasanum mínum og stingur sér í klósettið.  Ég sneri mér við, svo snöggt að engispretta hefði skammast sín við hliðina á mér, og vóóóó.... munaði sekúndubroti að ég næði að grípa hann áður en hann splassaði í pissinu.  Nú, þar sem ég er ekki pempía, sótti ég símann samt.  Hann var á lífi.  Hvað gerir maður svo við pissublautan síma ?  Jú, ég auðvitað þvoði gripinn í vatni................. og hann dó ! 

 

Lærdómurinn sem ég dró af þessu:   Það er í lagi að pissa á síma. Joyful


Aurar

Ég fékk í morgun póst frá Páli nokkrum Georgssyni frá El Salvador.  Kauði er bankastjóri í London og hann á í nettum vandræðum núna.  Hann þarf semsagt að losna við 26 milljónir punda í hvelli.  Samkvæmt myntbreytu munu þetta vera þrírmilljarðar og fjögurhundruð og fimmtán milljónir.  Þannig er mál með vexti að einhver Michael McGuigan stofnaði hjá honum reikning árið 1998 og síðan árið 2002 hefur engin hreyfing verið á þessum reikningi og Mikki bara finnst ekki þótt búið sé að leita fjórum sinnum í kringum allt húsið.  Nú langar Palla að vera góður og vill gefa mér 30% af þessum aurum - slefar yfir milljarð.  Það eina sem ég þarf að gera er að taka við þeim og setja þá í þvottavélina og senda honum svo aftur 70 prósentin.  Ekki flókið.  Mér var hins vegar kennt þegar ég var yngri að ég ætti ekki að tala við ókunnuga.  Svo vantar mig heldur ekki milljarðinn því mig langar ekki að vera Formaður öryggisráðs S.Þ.  Þessvegna hef ég, eftir örlitla umhugsun, ákveðið að áframsenda þennan póst á Dóra.  Ef hann er nú þegar orðinn Formaður og vantar ekki aura, þá getur hann kannski áframsent þetta til Elliheimilisins á Bolungarvík og bætt aðeins fyrir brot Sivjar vinkonu sinnar.

Skil samt ekki hvar Salvador-Palli fékk emailið mitt ?

 

Skyldi ég nú þegar hafa spurst út út !


Fræg

Nei góðan daginn. Grin  Auðvitað brosi ég út að vegg því það komu 100 manns á síðuna mína í gær.  Hugsið ykkur !  Og hvað þýðir þetta ?  Jú, hver meðalJón og meðalGunnhildur á Íslandi á svona 15 vini held ég, þótt ég eigi bara 4 og þá tel ég systur mína með.   Þið munið nú eftir jólakortasparnaðinum, right ?  Ef ekki, þá þarf að lesa bloggin mín aftur.

Nú reiknum við með að svona 83% af þessum 100,  (ef verkefnaskortur er að hrjá ykkur megið þið leysa þetta reikningsdæmi og finna út hvað það myndu vera margir)  muni eftir að segja vinum sínum frá síðunni minni en 17% eru greinilega eeekki að standa sig og ég ætla ekki að sóa tíma í að afsaka þá.   Nú,,  með víðtækum margfeldisáhrifum reiknast mér þá til að ég verð orðin HEIMSFRÆG í maí. Wink    Er ekki vorið yndislegur tími ? 

Vil svo bara benda þeim á, sem eru að safna eiginhandaráritunum, að það getur verið of seint að biðja um áritun EFTIR að ég verð fræg.  Ég hef nefnilega ekki hugmynd um hvort frægðin kemur til með að stíga mér til höfuðs eða ekki.  Hvernig ætti ég að vita það þegar þetta er mitt fyrsta skipti ?

 

 


ÚFF

Nei þetta er nú tú möts !

Það kom fram í útvarpinu á dögunum að við, smáþjóðin Ísland, værum búin að eyða MILLJARÐI í að reyna að fá stöðu formanns í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Sick 

Og til hvers má ég spyrja ?  Og hvern á ég að spyrja ?  Getur ekki Dóri bara fengið hagstæðan eftirlaunasamning eins og allir hinir ?  Er þessi "heiður" ekki aðeins of dýr fyrir budduna ?  Og hvað gerist ef við fáum ekki stöðuna ?  Verðum við þá ærulaus og ómerkileg ?  Ég myndi persónulega beita mér fyrir því að Dóri fengi að vera formaður í Ungmennafélaginu Skallagrími ef það yrði til þess að hægt væri að spara milljarð og annan.  Og þá yrði Dóri alsæll formaður og allt væri gott. 

Vill nú kannski einhver ráðamaður reikna fyrir mig hvað þessi ríkisstjórnarkarfa kostar:

  • Staða formanns í Öryggisráði S.Þ.        kr.................
  • Héðinsfjarðargöng                                     kr.................
  • Baugsmálið                                                  kr..................
  • Byrgismálið                                                 kr..................
  • Sendiráðin                                                   kr..................

 

og muna að taka þetta með vaski !

 


Bull er ekki bull nema buddl sé

Nú er ljóst að síminn er bilaður.

Annars er ég auðvitað mikið að velta fyrir mér þessari síðu.  Bloggvinir ?  Ég á engan.  Hef reyndar lagt mig í líma við að halda vinum í lágmarki til að spara jólakortakostnað.  Er hagsýn Wink   Skyldi maður þurfa að senda bloggvinum jólakort ?  Held vaddla.  Svo það gæti verið sjens að eiga bloggvin eða tvo.

Lýður Oddsson er séní.  Nú er ég búin að fá sóp-róbót eins og hann Grin  Frábært og ómissandi tæki.  Maður kveikir bara á honum og hann sópar allt húsið, aftur og aftur og eins oft og maður vill.  Ég þurfti reyndar að skúra áðan því hann kann það ekki ennþá.  En það stendur til bóta hjá róbóta.

Á morgun er sunnudagur.  Ég tek mig ekki hátíðlega nema á tyllidögum.  Hef aldrei botnað í fólki sem nennir að sóa tíma í að vera snobbað og hátíðlegt.  Skil heldur ekki hvernig fólk nennir að vera leiðinlegt.  Það hlýtur að vera leiðinlegt að vera leiðinlegur.... eða hvað ?  Jú, hef komist að þeirri niðurstöðu og á sama hátt er heimskulegt að vera heimskur og fyndið að vera fyndinn.  Verð að viðurkenna að ég er óstjórnlega stolt af rökvísi minni Joyful  

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sparisjóður grínista og nágrennis.

 

Anna Einarsdóttir
Anna Einarsdóttir

  

Af gefnu tilefni skal það tekið fram, að allt sem ég skrái á þessa síðu er vel meint, þótt það á köflum geti hljómað eins og illa meint,, þá er það alls ekki þannig meint. 

Bankahólfið

Alltaf á Toppnum....

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband