Opið bréf til Vinnumálastofnunar.

Vinnumálastofnun,
Stéttarfélag Vesturlands,
Félagsmálaráðherra.

 Varðar samskipti Vinnumálastofnunar við mig. 

 

Alla mína starfsævi hef ég lagt metnað í að standa mig vel í vinnu, vera dugleg og mæta vel.  Hef jafnvel mætt þótt ég sé lasin eða með hönd í fatla, ef illa stendur á fyrir vinnuveitandann að missa mig.  Enda hef ég góð meðmæli frá öllum mínum vinnuveitendum.

Jafnframt hef ég haft þá persónulegu reglu að ef ég get ekki hlakkað til að mæta í vinnuna, þá segi ég upp og finn mér eitthvað annað að gera.  Það gerði ég í vor og hætti störfum 1. september s.l.

Strax þá, tjáði ég Vinnumálastofnun að ég hyggðist vera í sumarfríi í september, enda var ég að fara að gifta mig með tilheyrandi undirbúningi og brúðkaupsferð en það hafði verið ákveðið fyrir kreppu.

Þar sem ég segi sjálf upp störfum á ég ekki rétt á atvinnuleysisbótum í næstum tvo mánuði og það vissi ég.   Taldi að ég hefði þá tíma til októberloka til að reyna að finna mér vinnu eða huga að stofnun eigin fyrirtækis.

En nei ! 

Ég kom heim þann 4. október og þá biðu mín nokkur bréf frá Vinnumálastofnun. 

-          Boðun á bókhaldsnámskeið  (ég hef Samvinnuskólapróf og hef unnið sem bókari, ritari, gjaldkeri og skrifstofustjóri, alls í 25 ár,  þannig að ég hef litla þörf fyrir slíkt námskeið.)

-          Boðun í starfsviðtal,  heimaaðhlynning.  (með dagssetningu sem var liðin þegar ég kom heim)

-          Ákvörðun um frestun greiðslu atvinnuleysisbóta (ég taldi ekki að ég hefði óskað eftir atvinnuleysisbótum fyrr en að loknum biðtíma, hvort eð er) og ástæða fyrrum vinnuveitanda fyrir uppsögn minni. (og tilgreind röng ástæða, byggð á kjaftasögum)

-          Boðun á Excel námskeið fyrir byrjendur !

 

En þetta var bara fyrsta vers.

9. október fæ ég bréf sem inniheldur setninguna „Þar sem upplýsingar frá þér um ástæður starfslokanna bárust ekki“.....   Rangt !  Ég var búin að senda þeim skriflegt svar þann 5. okt. í tölvupósti.

13. október kemur bréf... „Það er mat Vinnumálastofnunar að skýringar þínar á ástæðum starfslokanna teljast ekki gildar“  (bíddu, bíddu,  eru þeir að segja að ég sé að segja ósatt?  Nei, eftirgrennslan leiddi í ljós að þetta þýddi engar bætur á lögbundnum biðtíma - sem ég vissi nú alveg sjálf.)

 

15. október..... tvö bréf..... Boðun í starfsviðtal, vinnutími aðra hvora viku til 18.30 og aðra hvora helgi.  (Hef ég ekkert um það að segja lengur hvað ég vil starfa og hvort ég vil vinna kvöld og helgarvinnu?)  og bréf þar sem ég er beðin um að skýra 7.300 króna tekjur sem fram komu við samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra en ég hafði ekki tekið fram,  þegar ég skilaði inn áætlun um tekjur.  (Þessar tekjur voru vegna þátttöku í nefnd á vegum bæjarins, nefnd sem búið er að leggja niður þannig að þaðan var ekki frekari greiðslna að vænta).

.

 Nú hef ég verið atvinnuleitandi í tæpar 3 vikur og á þeim tíma hef ég fengið 8 bréf frá Vinnumálastofnun..... og ég er ekki einu sinni byrjuð á atvinnuleysisbótum !

.

crj5rbzqjx_vinnum%C3%A1lastofnun

.

 

Ekkert tillit er tekið til menntunar eða fyrri starfa minna, við boðanir á námskeið.
Aldrei hef ég verið spurð hvort einhver tiltekinn vinnutími eða starf henti mér ekki.

 

Er ég orðin eign Vinnumálastofnunar og getur stofnunin ráðstafað mér að vild ?

Mér líður eins og fanga á skilorði.

.

 Mig langaði bara að benda ykkur hjá Vinnumálastofnun á,  að þessi vinnubrögð gagnvart skjólstæðingum ykkar, gera hvern meðalmann þunglyndan á mettíma. 
.
Og til að forðast það að ég lendi í þeim farvegi,  afþakka ég hér með öll afskipti ykkar af mínu lífi og bið um afskráningu hjá Vinnumálastofnun.   

 

Ég er stolt og hef lagt allt kapp á að sjá fyrir mér sjálf, frá því ég var 16 ára.

Það mun ég gera núna líka, einhvern veginn.

Jafnframt bið ég ykkur að íhuga að atvinnuleysið á Íslandi er ekki fólkinu á atvinnuleysisbótum að kenna.  

 

Sýnið fólki lágmarks virðingu.

 

Borgarnesi,  22. október 2009

Anna Einarsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Mjög góð grein hjá þér, ég & eflaust flest allir atvinnuumsækjendur hafa fengið að kenna á mjög svo óvönduðum vinnubrögðum Vinnumálastofnunnar!  Þeir stöðvu greiðslu til mín þegar Verzlunarmannafélag Reykjavíkur greiddi mér út kr. 4.000 tengt séreignarsparnaði af því ég gaf ekki upp þær tekjur...lol....!  Í tvö ár svindluð þeir á mér og greiddu mér bara 82% atvinnuleysisbætur, ég fékk 8 sinnum synjun á leiðréttingu, og það var ekki fyrr en bað félagsmálaráðherra að beita sér í mínu máli að Vinnumálastofnun fór að kanna mitt mál og komust þá að því að ég átti rétt á 100% bótum allan tímann....lol...!  Þeir leiðréttu svo þetta eitthvað 6 mánuði aftur í tíma (mega fyndin stofnun) og nú fæ ég reyndar 100% bætur, en þeir gerðu ALLT sem þeir gátu til að hafa af mér fé...!  Þeir fá algjöra falleinkunn hjá mér eins og hjá þér..!

kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson, 22.10.2009 kl. 12:44

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Makalaust, Anna! Ég setti færsluna á fésið til að vekja athygli á þessum ósköpum. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.10.2009 kl. 14:17

3 identicon

Góð ábending það má koma þessu frekar á framfæir..það hafa allir sömu sögu að segja um þessa stofnun dóttir mín hrökklaðist í burtu vegna fyrirlitningar og framkomu starfsmanna...Ég lenti í að fá ekki starf eftir 3 ára háskólanám og hafði misst rétt á að fá bætur ... var bent á að fara á bæinnn en ég ákvað að sjá um mig en því miður eru margir í þeim sporum það þarf að skoða reglurnar betur stjórnvöld hafa ekki haft mikin áhuga á þessum málaflokki. Svo er eh að vinnumenningunni á þessari stofnun því miður einmitt þegar við þurfum á þeim að halda nú þegar ástandið er eins og það er..

Bryndís Bjarnarson (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 14:42

4 identicon

Frábært bréf!

Elli (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 15:08

5 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Flott færsla hjá þér Anna - og makalaus vinnubrögð Vinnumálastofnunar, þvílíkt bull!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 22.10.2009 kl. 15:20

6 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Ótrúlegur anskoti þetta batterí! Fari það rass og rófu og getur riðið grárri ...

Annars gaman að sjá færsluna þína á Face book - ég nenni ekki að blogga lengur og ekki batnaði það eftir eigendaskiptin og allar uppsagnir blaðamannanna! Bið að heilsa Bratti og innilega til hamingju með ykkur og ykkar hjónaband - skoðaði myndirnar og þær eru yndislegar.

Edda Agnarsdóttir, 22.10.2009 kl. 16:41

7 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Ég lenti í því í vor að Vinnumálastofnun Suðurlands skellti á mig í miðju símtali. Hún var víst ekki alveg nógu ánægð með athugasemdir mínar forstöðukonan.......

Þetta er ótrúleg stofnun og ég gæti talið upp mýmörg atriði um samskipti mín við fólk þarna. En ég nenni því ekki....

...þau eru ekki tímans virði!

Hrönn Sigurðardóttir, 22.10.2009 kl. 17:39

8 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

rock on Anna!!!

Brjánn Guðjónsson, 22.10.2009 kl. 19:58

9 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Anna þetta er rétt hjá þér það á að sína fólki kurteisi og  taka fólk í viðtal og kanna hvar þeirra styrkleikar eru og einnig veikleikar þannig miðlar hún fólki á þá staði sem það á heimi í

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 22.10.2009 kl. 21:10

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Fín færsla hjá þér, Anna.
Er bara eitt stéttarfélag á Vesturlandi núna? Öðruvísi mér áður brá. Einu sinni var ég formaður í Verslunarmannafélagi Borgarness.

Sæmundur Bjarnason, 22.10.2009 kl. 21:41

11 identicon

Prófaðu að segjast vera flóttamaður,þá færðu fína þjónustu!Nei án gríns þetta er alveg skammarlegt,þvílík framkoma þessa embættis.

Númi (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 23:04

12 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Kærar þakkir öll.

Sérstaklega met ég þitt álit mikils, Elli föðurbróðir minn. 

Anna Einarsdóttir, 22.10.2009 kl. 23:16

13 Smámynd: Halla Rut

Ég þori ekki að segja hvað mér finnst. úff.

Gangi þér vel að finna vinnu. Þú ert stórgreind og ættir að fá vinnu strax enda vantar fólk til starfa á mörgum stöðum. 

Halla Rut , 23.10.2009 kl. 00:45

14 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Skammarleg framkoma þessarar stofnunar og eins og þú bendir á, pottþétt aðferð til að troða hverri meðalmanneskju niður í dýpsta þunglyndi á örskotsstund. Akkúrat það sem allir þarfnast þessa dagana. Undarlegur andskoti annars hve hratt og auðveldlega gengur að finna misræmi uppá 7.300.- krónur hjá gleðigjafa með tattó í Borgarnesi, á meðan ekkert virðist ganga að finna 7.300.-milljón, trilljón, skrilljón krónur eða hvað þetta er nú orðið allt saman samanlagt, hjá bankaræningjum og öðrum þjóðarníðingum, sem enn spóka sig um stræti og torg, eins og ekkert hafi í skorist. Andskotinn bara að þurfa að horfa uppá þetta. Eða þurfum við að horfa uppá þetta? "Búsáhaldabyltingin" var bara prump sem gat af sér ekkert minni skítalykt en þá sem mótmælt var. Hræddur um að endi með einhverju illvígara en pottum og pönnum í næstu umferð og það kann ekki góðri lukku að stýra. Annars bestu kveðjur frá Tuðaranum í Borgarnesið með von um bjarta framtíð og blóm í haga ykkur til handa. Sjálfur farinn aftur til Argentínu og er alvarlega að spá í að halda mig bara þar. Engin vinnumálastofnun að kljást við og þar er spillingin ekki heldur eins slæm og á Íslandi.

Halldór Egill Guðnason, 23.10.2009 kl. 00:51

15 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Ekki gleyma því að þú mátt ekki fara úr landi - þá missirðu bótarétt. Ef þú ert að fara út til að leita að vinnu þarftu að fylla út pappíra hjá VMST, mátt ekki vera lengur en í þrjá mánuði, og mátt bara leita í einu landi. Ef þú finnur ekki vinnu, þarftu að koma heim aftur, finna einhverja vinnu hér (hvernig sem þeir ætlast til þess að þú gerir það þessa dagana) og verður að vinna hér í einhverja mánuði áður en þú mátt fara aftur út.

 Þegar þúsundir manna eru atvinnulausar finnst mér að það mætti aðeins slaka á svona reglum.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 23.10.2009 kl. 03:09

16 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Það vantar eitthvað upp á samskiptagreind hjá opinberum stofnunum.  Ég myndi mæla með þér í að kenna þeim betri framkomu við mann og annan.

Það er eins og markmiðið sé að brjótam mann niður.  Guði sé lof og þökk fyrir að vera ekki í þessarri stöðu.  Ég gæti bara ekki tæklað það án þess að vera með læti.  Mikil læti.

Ingibjörg Friðriksdóttir, 23.10.2009 kl. 07:55

17 Smámynd: Halla Rut

Hér á höfðaborgarsvæðinu eru, að ég held, um 10.000 manns atvinnulausir. Öllu þessu fólki eru greiddar bætur úr okkur sameiginlegu NEYÐAR sjóðum. Á sama tíma eru um 3000 störf skrá laus hjá sömu stofnun og annast greiðslur bótanna. Er ekki eitthvað bogið við þetta? Vinnumálastofnun hér er greinilega ekki að vinna vinnu sína eða hefur ekki mannskap í það. Öðru máli virðist hinsvegar gilda um Vinnumálastofnun Vesturlands.

Fyrir ári síðan gat fólk valið úr störfum og sett kröfum um laun og aðbúnað. Við gátum sagt upp starfi okkar á hvaða tíma sem var án þess að hafa nokkrar áhyggjur af því að fá ekki annað boðlegt starf þegar okkur hentaði. Þessi tími er liðinn og mun núverandi ástand vara um nokkurt skeið í boði þeirra er kannski veittu okkur munaðinn áður.

Fyrir okkur sem höfðum ekkert með hrunið að gera er mjög erfitt að sætta okkur við að allt í kringum okkur hefur breytst en við þurfum að sætta okkur við það. Við þurfum í raun öll að taka niður fyrir okkur á einn eða annan hátt og leggja meira á okkur en við erum vön. Við þurfum að standa saman og setja kraft í málin til að við getum endurheimt fyrra líf og lífshætti.

Halla Rut , 23.10.2009 kl. 10:57

18 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Halla Rut.

Ekki veit ég hvaðan þú hefur töluna 3000 laus störf hjá Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu ?  Skv. þeirra heimasíðu eru 62 laus störf.  http://www.vinnumalastofnun.is/svm/starfavisir.aspx?Vinnumidlun=hb

Hins vegar má finna einhver fleiri laus störf á atvinnumiðlunum... en þau eru ekkert mjög mörg.  Ég er sko búin að vera að leita. 

Hvað það varðar að "fólk þurfi að taka niður fyrir sig" í vinnu vil ég segja að mér finnast öll störf jafn mikilvæg.  Sjálf fór ég úr skrifstofustjórastarfi í umsjón með grænmeti í verslun og var stolt af sjálfri mér í því starfi, meðan ég var þar.  Það kom hins vegar sá tímapunktur að ég vildi ekki vinna þar lengur (af ástæðum sem ég tilgreini ekki hér) og því sagði ég upp.

Ég tel það ekki eftir mér að vinna nánast hvað sem er.... þó með þeim formerkjum að ég vil vinna á dagvinnutíma og ég get heldur ekki unnið einhver örfá störf vegna klígjugirni minnar.   

En er semsagt sammála þér að við Íslendingar erum ekkert of góðir til að vinna þá vinnu sem þarf að vinna hverju sinni.

Anna Einarsdóttir, 23.10.2009 kl. 11:31

19 Smámynd: Halla Rut

Sæl Anna

Ég veit ég ég hef hætt mér út í umræðu þar sem mín sýn gæti ýtt við mörgum enda mjög viðkvæmt mál. Ætlaði nú að skrifa þetta í gær en bara þorði því ekki. En í dag þá rifjaði ég upp pirring minn á því að þar sem ég starfa fæst ekki fólk í vinnu. Einn daginn vorum við með 14 sem áttu að mæta í viðtal. Einn mætti. Við höfum nú verið að leita af fólki í 2 mánuði og höfum náð að ráða einn. 

Í gær hitti ég mann á miðjum aldrei sem var að flytja aftur heim eftir að hafa búið í útlöndum í 7 ár. Hann óð um allt og sótti um vinnu alls staðar. Hann var viss um að fá hreint NEI hjá öllum en raunin var allt önnur. Hann gat fengið vinnu á fullt af stöðum og fór í 5 viðtöl bara í gær. Þar sem ég starfa sækir engin um en samt erum við með skilti þar sem óskað er eftir starfsfólki sem fleiri þúsund mans lesa í hverri viku. Ágætur og hreinlegur vinnustaður skal ég segja þér. Skólafólk sækir um hins vegar sem aldrei fyrr og notumst við því við þá (greinilega ekki lengur hægt að fá eins mikið úr vasanum hjá mömmu og pabba).

Ég held að þetta sé allt öðruvísi úti á landi. Fólk hugsar öðruvísi. En varðandi að taka niður fyrir sig þá var það kannski klaufalega orðað hjá mér en það sem ég átti við er að fólk sem er t.d. með langa reynslu í bankageiranum og var kannski komið ofarlega í stigann þar þarf nú að fara aftur í neðsta þrepið á öðrum vettvangi, alla vega um sinn.

Ekki gæti ég t.d. unnið í sláturhúsi en svona flest annað held ég. 

Halla Rut , 23.10.2009 kl. 11:47

20 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Það er mikið til í þessu hjá þér Halla Rut.... einhvern veginn breyttist viðhorf margra Íslendinga til ákveðinna starfa á "velmektarárunum" og sumir töldu sér ekki samboðið að vinna ákveðin störf.   

Hvað Vesturland varðar, er Borgarnes eitt af þeim byggðarlögum sem hafa farið hvað verst út úr kreppunni.  Hér voru stærstu fyrirtækin í byggingariðnaði þar sem varð algjört hrun, eins og menn vita.

Ég gæti vel hugsað mér að starfa á höfuðborgarsvæðinu en það er svo skrambi dýrt að keyra á milli daglega.

Ef einhver veit um starf handa mér á höfuðborgarsvæðinu... sem annaðhvort inniheldur bíl eða er þess eðlis að ég get unnið í fjarvinnslu heima.....endilega þá að senda mér póst. 

annaeinars@simnet.is

Anna Einarsdóttir, 23.10.2009 kl. 12:17

21 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ja, varðandi það að ef vnnustaður óskar eftir vinnuafli og enginn fæst í að selja vinnu sína til viðkomandi vinnustaðar - það finnst mér benda til að eitthvað sé bogið við vinnustaðinn í kjörum og/eða vinnuaðbúnaði.

Það er nú ekki flókið að finna það út.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.10.2009 kl. 12:48

22 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ps. og já.  Vinnumálastofnun er pein.

Þessvegna skil eg ekki alveg umræðuna sem skýtur upp öðru hverju um hve auðvelt sé að vera á atvinnuleysisbótu og svindl þar að lútandi.

Fatta það ekki alveg.   Mín reynsla er að það er eiginlega full vinna að vera á atvinnuleysisbótum.  Endalaust eitthvað kvabb og bréfaskrifti.  Reynt að troða manni á vinnustaði þar sem enginn vill vinna vegna lélegra kjara og vinnuaðbúnaðar etc.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.10.2009 kl. 13:16

23 identicon

LEGEND.....þú ert eintómur snillingur og ekkert annað eða reyndar alveg fullt annað líka :):):):)... annað fólk á að taka sér þig til fyrirmyndar :)

Kristín Sif Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 13:24

24 identicon

Alveg og algerlega hjartanlega sammála þér, þótt ekki sé það af eigin reynslu heldur gegnum son minn sem fékk svona skemmtilegan bréfabunka frá Vinnumálastofnun í vor þegar hann missti vinnuna, hvert bréfið öðru óskiljanlegra. Sem betur fór náði hann sjálfur að útvega sér vinnu og þurfti því ekki að vera upp á náð stofnunarinnar kominn. Vonandi gengur þér vel að finna eitthvað sem þú getur verið fullsæmd af að vinna og ráðið sjálf hvar og hvað þú vinnur, rock on með það!

Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 18:10

25 identicon

Þegar ég las bréf þitt Anna, spyrði ég sjálfan mig hveru langan tíma það hefði tekið Vinnumála(hegningar)stofnunina að læra þetta að Svíum (Íslensk stjórnvöld er afar námfús á ALLT sem kemur frá hinu opinbera í Svíþjóð. Þetta hef ég lært eftir 23 ár í Svíþjóð)

Þessi lýsing þín Anna er NÁKVÆMLEGA eing og þúsundir svía ganga gegnum á hvernum degi hjá fyrirbrigði sem í Svíþjóð heitir Arbetsförmedlingen. Þar sem fólk er notað og misnotað til þess að halda "statistík" um atvinnueysi niðri. Með því að búa til allskonar námskeið og lausastörf er hægt að segja að viðkomandi sé EKKI atvinnulaus og EF viðkomandi af einhvernum ástæðum vill ekki taka þátt í leiknum er HÓTAÐ að taka af bæturnar. Hér STJÓRNA peningar ÖLLU, virðing fyrir fólki er ekki til. HÉR SKAL FÓLK HALDAST Í SKEFJUM OG VERA ÞAKKLÁTT FYRIR AÐ "RÍKIÐ" SÉ SVONA GOTT VIÐ ÞAÐ.

Vel gert hjá þér að láta ekki bjóða þér þetta (hér í landi heldur fólk kjafti, því miður)og ég er viss um að þú fáir starf við þitt hæfi og GETU.

Síðan hvet ég þig að standa á rétti þínum og jafnvel fara til umboðsmanns Alþingis með sögu þína.

baráttukveðja frá Norrköping, Svíþjóð

Guðjón Bjarnason (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 21:51

26 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Sammála þér Anna. Ég sé ekki að maður taki niður fyrir sig með því að fara í vinnu sem einhver annar er ekki of góður til að vinna.  En það er ekki fyrir alla að vinna vaktavinnu eða á næturnar.   Gangi þér vel!

Ingibjörg Friðriksdóttir, 23.10.2009 kl. 22:21

27 identicon

Mig langar að benda á eina leiðindarsögu sem ég var að heyra og þekki ég viðkomandi persónulega og hef gert frá því að hann var lítill strákur, það er ekki beint hægt að kalla hann venjulegan enda á hann við félagslega örðuleika að stríða og því er hann frábruðgðin að mörgu leiti frá öðrum, einnig er hann of þungur kannski einhvað um 150 kg... en hvað sem að því líður þá var hann að vinna á stað það sem hann mætti á hverjum einasta degi og vann.. og þetta er var það auðveld vinna sem hann var að vinna heldur var þetta í álverinu á Grundartanga, það endaði með því að þessi strákur varð fárveikur á að vinna þar og vegna ryk og óvþerra var hann næstum lagður inn á sjúkrahús. Hann á við þunglyndi að stríða og á mjög erfitt og þyrfti helst að fá stuðning og hjálp frá fólki... hvort sem fjölskylda eða stofnun.. það sér hver maður sem hann þekkir.

Hann er búin að vera atvinnulaus núna í einhvern tíma og finnur ekki vinnu, hann fór til vinnumálastofnunar og sótti um atvinnuleysisbætur og fékk þær... já... en þegar hann fer að skrifa upp á það að hann sé enn atvinnulaus (eins og fólk þarf að gera hvern mánuð) lætur ein kona sem þar vinnur hann heyra það og það óþvegið.... Hún sagði þetta við hann "Þú ert latur og feitur og situr á sófanum heima hjá þér og ÉTUR upp allan þann pening sem við skömmtum þér... þú ættir að skammast þín og hætta að vera svona latur og feitur..og gera einhvað í þínum málum"(Hvort sem hún sagði einhvað meira og verra við hann veit ég ekki) en hann var miður sín og bætti hún ekki líðan hans gagnvart sjálfum sér og var bara andstyggileg við hann. Hann vildi ekki taka vinnu sem honum var boðið á bensínstöð, því að hann vissi að það mundi kvelja hann... hann vildi vinna í verksmiðju eða einhversstaðar á bakvið tjöldin þar sem samskipti við fólk væru í hæfilegu lágmarki. Auðvitað þarf þessi drengur allan þann stuðning sem hægt er að veita honum enda má segja það að hann sé veikur upp að vissu marki.  En hvað sem því líður þá hefur ENGINN þann rétt að tala við hann eins og þessi hræðilega kona sem vinnur við það að tala við fólk í Borgarnesi vegna atvinnuleysisbóta gerði.... Hún er ekkert nema sálarlaust óféti og ætti best heima í þaklausu fjárhúsi á eyðibýli á vestfjörðum.

Kristin Sif Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 23:48

28 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Já, það vantar stundum dálítið upp á mannasiðina hjá sumum. Fyrir nokkrum árum þurfti ég að sækja um fjárhagsaðstoð hjá Féló. Ég mætti í viðtal og það skipti engum togum, félagsráðgjafinn svoleiðis hellti sér yfir mig: hvernig vogaði ég mér að vera atvinnulaus, það væri sko nóg af störfum í boði, og hún gæti lofað mér því að ég yrði feit og þunglynd um þrítugt, og ef mamma mín hefði bara hundskast til að fara í skóla væri hún sko ekki öryrki i dag og ég yrði örugglega alveg eins, lifði bara á bótum út ævina eins og aumingi. 

Ég hringdi síðan til að kvarta yfir hegðun manneskjunnar en fékk þau svör að hún væri búin að vinna þarna lengi og hefði aldrei farið að segja svona, ég hlyti bara að hafa misskilið hana.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 24.10.2009 kl. 02:35

29 identicon

Ég er alveg orðlaus eftir að lesa það sem fólkið er að ganga í gegnum hjá fólki sem er á launum hjá okkur og á að sínna fólki sem þarf aldrey meir á mærgætni að halda enn núna,hvar ER kærleikurinn.Ég var á ASI Ársfundi þar var samþyggt að skráning atvinnulausra færi aftur til Verkalýðsfélagana þar er mannlegi þáturinn hafður í heiðri félags aðild er frjáls á Vesturlandi við eigum formann sem berst fyrir okkur það er honum að þakka að við fengum umsamdar launahækkanir sem FORUSTA ASI gaf eftir án okkar samþykki Áfram með ykkur látið ekki kúa ykkur þið eru ekki ein í baráttuni,Kærleiks kveðjur Jóna

Jóna Adolfsdóttir (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 11:22

30 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Takk fyrir hvatningu og skoðanaskipti.

Hjá Stéttarfélagi Vesturlands starfa afar ljúfar og liðlegar konur og ég sendi þeim bara mínar bestu kveðjur.

Það er enda þannig að kvörtun mín beinist ekki að ákveðnum aðilum heldur kerfinu sem slíku.  Það gengur auðvitað ekki að senda bara alla atvinnulausa í grunnskóla aftur..... það verður að taka mið af menntun og reynslu fólks áður en það er boðað á námskeið.  Og takið eftir að Vinnumálastofnun er ekkert að bjóða fólki upp á úrræði...... það heitir BOÐUN og er ekki valfrjálst.

Anna Einarsdóttir, 24.10.2009 kl. 11:53

31 identicon

Sæl Anna,

Nú veit ég hvers vegna ég sé þig ekki lengur í grænmetinu... Sl. vor kom tímabil hjá mér þar sem ég var ekki í fastri vinnu. Ég velti fyrir mér hvort ég ætti eitthvað að skoða stöðu mína hjá Vinnumálastofnun, en hvarf mjög fljótlega frá þeirri hugmynd. Ég ákvað að ég væri ekki atvinnulaus, heldur einfaldlega í millibils ástandi, og ég var ekki tilbúin að taka að mér hvaða vinnu sem er, heldur vildi ég fá tækifæri til að skapa mín eigin tækifæri og velja mér viðfangsefni (sem ég og gerði). Ég var í þeirri forréttindastöðu að ég gat leyft mér þetta viðhorf, þar sem ég vissi að ég myndi ráða við það fjárhagslega í svolítinn tíma að vera án fastra mánaðarlauna.

Nú, þegar ég les pistilinn þinn um þessi vægast sagt niðurdrepandi samskipti er ég ekkert smá fegin að hafa valið þessa leið. 

Gangi þér vel í leitinni. Handviss um að þín bíður eitthvað frábært tækifæri rétt handan við hornið...

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 22:13

32 Smámynd: Katrín Linda Óskarsdóttir

Eftir bankahrunið var ég atvinnulaus í u.þ.b. ár ..... Vinnumálastofnun reyndist mér vel og starfsfólkið þar upp til hópa vingjarnlegt og skilningsríkt. Það sem Tinna og Kristín Sif segja hér að ofan finnst mér harla ótrúlegt, vægast sagt.

Við verðum að athuga það að við lifum á sérkennilegum tímum og flestir í einhverjum vanda. Held að fólk t.d. hjá Vinnumálastofnun sé að reyna eftir bestu getu að sinna starfi sínu vel, en auðvitað verða þau að vera tortryggin, dæmin sanna það, EN ég fékk aldrei annað frá þeim en kurteisi og virðingu

Katrín Linda Óskarsdóttir, 24.10.2009 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sparisjóður grínista og nágrennis.

 

Anna Einarsdóttir
Anna Einarsdóttir

  

Af gefnu tilefni skal það tekið fram, að allt sem ég skrái á þessa síðu er vel meint, þótt það á köflum geti hljómað eins og illa meint,, þá er það alls ekki þannig meint. 

Bankahólfið

Alltaf á Toppnum....

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband