Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Morgunstund gefur gull í mund.

 

 

Með það í huga ríf ég mig upp fyrir allar aldir.

Allar aldir !  Gasp  Hvenær koma þær ?  Hef ég kannski vaknað alltof snemma, ehmmm ?

 

Gull

 

( Skrambans slóð !  Nú sjá allir að ég stal myndinni af netinu en tók hana ekki sjálf. Blush )

 

Aftur að efninu....... nú kem ég með smá orðskýringu í boði hússins

Mund þýðir hönd

Morgunstund með gull í mund þýðir því væntanlega gullmoli í lófa mínum innan skamms.

 

Þetta er stórsniðugt.  Grin

Ef mér þætti ekki gaman í vinnunni, myndi ég hætta að vinna og vakna bara snemma einstaka sinnum,  þegar ég þyrfti smá gullmola.

Allavega er ég vöknuð núna, löngu fyrir aldirnar, þrátt fyrir að vera í sumarfríi svo nú er bara að bíða og sjá.

Skyldi pósturinn henda inn molanum ?

Þessi dagur er gríðarlega spennandi.  Grin

Samt held ég að mig vanti ekkert gull eins og er.  Það verður því annað spennandi dæmi hver fær gullmolann sem kemur kannski í póstinum á eftir.  Wink


Úrslit farin að skýrast.

 

Nú er ég búin að raða blogg-skák-vinum mínum með tattoo upp í ákveðinni röð.

Glöggir lesendur sjá strax að þarna er komin afar líkleg niðurstaða í væntanlegu móti.

 

chess

 

Kristjana vinnur og því er hún efst.  Til hamingju Kristjana mín.  InLove

 

Svo kemur Brattur.  Með hann sem dómara í mótinu verður ekki hjá því komist að hann dæmi sjálfum sér nokkra sigra og komist upp með allskonar svindl og svínarí.  Hann er hrókur alls fagnaðar og er þá með þrjá hróka.  Það verður erfitt að eiga við úthugsaðar brellur hans.  Maðurinn er kex !

 

Þriðja sætið kemur í hlut Bjargar.  Það veit nefnilega enginn hvaða andstæðing hún hefur að geyma.  Þetta er stelpa með fullt af nefbeinum.  Hún stundar flúðasiglingar villt og galið... aðallega galið.   Strákarnir munu vaða upp í hugsunarlausa sókn og gleyma að verjast.  Hún heimaskítsmátar þá.

 

Edda fær fjórða sætið.  Það þarf ekkert að rökræða það.  Edda !  Þú ert ekki einu sinni bloggvinkona mín.  Lagaðu þetta stelpa.  Wink

 

Fimmti verður Ægir.  Hann kann víst Sikileyjarvörn, drottningarvörn og prinsessuleik, auk þess sem hann hefur þróað með sér afar mikla þolinmæði undanfarnar vikur.  Ægir er búinn að vera allt þetta ár að fúga smá klósettkytru.  Hvernig er þetta hægt ?

 

Í sjötta sæti kemur Halldór.  Hans tími er ekki kominn.  Ágústmánuður sem átti að fara í að læra mannganginn, fer að mestu í tiltekt í garðinum.  Halldór hefur nýlega viðurkennt að hann er búinn að missa alla stjórn á trjágróðrinum sínum.  Nú stjórna Aspirnar á hans heimili.  Þess má geta í framhjáhlaupi að Halldór býður upp á fyrirtaks skíðasvæði í kartöflugarðinum heima.

 

Nú vil ég ekki fara lengra í verðlaunasætaúthlutuninni því ég verð sífellt óvinsælli eftir því sem neðar dregur.  Blush 

 

Sjálf mun ég lauma mér ofarlega á listann, mér sjálfri til ómældrar ánægju.  Grin

 Það er ekkert grín að vera svín.

 

 

 

 

 

 


Stelpupör.

 

Það er vandi að vera stelpukjáni og kostar fórnir.

 

Ég geri eitt og annað til að viðhalda stelpuímyndinni, sem er auðvitað minn stíll og hefur verið síðan ég var stelpa.  Grin 

Fólk eyðir áratugum í að leita að sjálfu sér og finna sér sinn eigin stíl.  Sjálf gafst ég upp á að leita eftir fertugt,, ákvað þá með stæl að vera bara áfram stelpa.  Þessvegna kemur ekki til nokkurra mála að gera eitthvað sem breytir mér í kjéddlingu. 

 

Eitt er það sem veldur ama - aðallega öðrum - því ég er langoftast hæstánægð.

Ég sé ekki rassgat útfyrir 10 metra radíus.  Joyful   Það heitir að vera nærsýn.  Shocking

 

GLASSES

 

Þetta orsakar það, að í 20 ár hef ég ekki heilsað fólki sem ég mæti í bílum nema ég þekki bílinn.  Í sama árafjölda hef ég heldur ekki heilsað fólki sem er svo óprúttið að ganga hinumegin við götuna.

 

Ég á sko gleraugu !  En þau henta hræðilega mínum stelpustíl því ég breytist í kennslukonu ef ég set þau á andlitið á mér.  Á mjög áhrifamikinn hátt.

 

Er Policen  nokkuð að lesa þetta ?   Einu sinni prófaði ég að setja upp gleraugun þegar ég var að keyra og þá brá mér heldur betur !  Ótrúlega var mikil umferð.  Ég tók þau strax niður aftur, því ég varð hreinlega dauðskelkuð að sjá alla þessa bíla.   Miklu öruggara að sjá minna.

 

Á íþróttaleikjum vandast málið.  Enginn fókus !  Verð að viðurkenna að tvisvar eða þrisvar hef ég laumað glyrnunum á nefið á mér, sem áhorfandi á verulega spennandi körfuboltaleikjum.  En við erum þá að tala um fjögurra liða úrslit og allt í laumi.  Megi himnarnir hrynja á gleraugun mín ef ég næst á sjónvarpsmynd með þau.  Crying 

 

Nú man ég !  Stalst líka einu sinni til að lauma rúðunum á nefið í leikhúsi.  Hafði heyrt að leikarinn yrði gersamlega berrassaður í lokaatriðinu.  Svoleiðis löguðu vill nú enginn, með virka hormónastarfsemi, missa af. Blush  Nektaratriðið stóð yfir í hálfa sekúndu.  Svindl !  Angry

 

Linsur er ég sko búin að reyna að prófa.  Augnhárin mín breytast í útkastara.  Kasta linsunni út - áður en hún kemst inn.   Þar gafst ég upp þegar fjórar linsur voru ónýtar.

 

Annars veit ég ekki af hverju ég er að pikka þetta !  Þetta er sko ekkert mál fyrir Önnu sál.  Grin

 

Sé´ðig !

 


Tveir fyrir einn tilboð......skák og félagsvist.

 

Bloggvinir mínir mega vart vatni halda fyrir spenningi yfir skákmóti bloggvina með tattoo.  Þeir sofa ekki á nóttunni einusinni.  Ég hins vegar svaf eins og ungabarn í tjaldi í nótt og mun, með þessu áframhaldi koma mun betur andlega undirbúin á mótið - og taka þá í nefið,  annaðhvort á sálfræðinni eða yppon... fer eftir ýmsu.

 

Nú hef ég hugsað mér, þar sem ég verð komin til Reykjavíkur hvort sem er, að gera aðeins meira úr ferðalaginu.  Eftir hraðskákmótið er ákveðið að taka nokkra hringi í félagsvist.  

 

poker%20cards

 

Kristjana mun vinna skákmótið, deffenatlí, af því að hún er langsætust. 

Ég ætla hins vegar að vinna félagsvistina Grin af því að ég er ákveðin í því. 

 

Það skal tekið fram að einungis þátttakendur í skákmóti bloggara með tattoo, fá að spila með.  Klíkuskapur og ekkert annað. Tounge

 

Síðar meir,  þ.e. einhvern annan keppnisdag, má athuga með 100 m. hlaup sem mér skilst að Brattur sé spenntur fyrir......... eða kosningaslag fyrir Ægi..........já eða rauðvínssmökkunarkeppni með Halldór í huga.  

Sjáum til !


AUGLÝSING.

 

Þann 21. september 2007 klukkan 20.30, verður haldið fyrsta mót skákfélags bloggara með tattoo.

 

chess

 

 

Þetta var ákveðið á formlegum fundi, sem stóð langt fram á nótt, enda að mörgu að hyggja við skipulagningu svo viðamikils mót.

 

Kristjana blómarós er talin lang-sigurstranglegust, þar sem strákarnir munu alveg gleyma skákinni og fálma eitthvað út í loftið með hana sem mótherja.  Afar líklegt þykir að þeir felli kónginn með fálmurunum og þá er hún að sjálfsögðu búin að vinna !

 

Brattur Ástríkur Rugludallur Kexlákur Sultukrukka sýndi sig að vera mesta frekjudollan í hópnum, valtaði yfir okkur hin og skipaði sjálfan sig hlutdrægan dómara í mótinu.  Hann hefur þegar veðjað á sjálfan sig sem sigurvegara og heldur auk þess með Ægi.

  Ekki af því að Ægir sé eitthvað góður í skák - hann hefur enga tendensa í þá átt sýnist mér.  Nei, Brattur heldur með honum af þeirri lúsarlegu ástæðu að Ægir studdi hann í dómarasætið.  Ægir á litla möguleika á sigri þar sem hann er alveg úti á túni að tjalda - og það í september.

 

Ég sá mig tilneydda til að grípa til óyndisúrræða.  Um leið og ég sá heiðarlegt andlit á fundinum, Halldór, skipaði ég hann eftirlitsdómara, við nákvæmlega enga kátínu Bratts Ástríks Rugludalls Kexláks Sultukrukku sem nánast fór að skæla á staðnum. 

 

Til að rífa hann upp úr andlegri eymd, leyfðum við honum að velja sér dómarabúning.  Fyrir valinu varð hefðbundin dómarabúningur;  svartar stuttbuxur og bolur með númer 1. á bakinu, auk hvítra sokka.  Brattur leggur að sjálfsögðu af stað heiman frá sér í svörtum sokkum, því litla klára konan hans vill ekki að hann sé alger smekkleysa......... en svo skiptir hann um sokka á leiðinni.

 

Rökstuddur grunur er fyrir því að Arnfinnur muni smygla sér inn á mótið, því allsstaðar þar sem eru stelpur, þar er Arnfinnur.  Hann stendur einmitt núna á hliðarlínunni á einhverju fótboltamóti og þykist hafa vit á fótbolta - en er í raun að skoða mömmurnar.

 

Verðlaun í skákmóti skákfélags bloggara með tattoo verða ekki af verri endanum:  

1. verðlaun  TATTOO

2. verðlaun  Húrrahróp og klapp

3. verðlaun  Klapp

 

Tekið er við skráningum á snilld007@hotmail.com  og verður staðsetning mótsins nánar auglýst síðar.  Skilyrði fyrir þátttöku er að viðkomandi kunni mannganginn, hafi tattoo daginn sem mótið fer fram og sé bloggvinur.  Keppnisgjald er kr. 2000,- eða meira.

 

F.h. Skákfélags bloggara með tattoo,

Anna Einarsdóttir, formaður.

 

 

 

 


Stríðinn.

 

Fyrrverandi tengdafaðir minn var mjög stríðinn eins og ég hef áður komið inn á.

Eitt sinn átti hann í rökræðum við mann, sem staddur var í Ólafsvík, á vörubíl með fullfermi af möl.  Tengdó var staddur í Borgarnesi. 

Þá greindi á um hve mikið bílfarmurinn vóg.  Eftir nokkrar þrætur um þyngd hlassins, sagði tengdó:

"En þú veist að það er mælt í Farenheit hér en Celsius þarna" ?

Hinn, snöggur upp á lagið og þóttist yfirleitt vita allt, hnussaði;

"Já, veit ég vel, veit ég vel,  en ég er samt viss um að þyngdin er rétt hjá mér" !

 

escalatemp

 

 


Ó Tinni, elsku Tinni minn.

 

Sem einlægum Tinna-aðdáanda er mér nú brugðið.

Skv. Fréttablaðinu í dag er búið að senda Tinna í Kongó í útlegð !

 

congo

 

Þegar ég var krakki og unglingur, voru nokkur atriði sem þurftu að vera í lagi svo að jól væru jól.  Það þurfti að vera hangikjöt í matinn, (sem oftast) nammi í seilingarfjarlægð og Tinnabækur í jólagjöf.  Ég fékk alltaf eina Tinnabók og bróðir minn aðra. 

Því hef ég drukkið í mig Tinnabækur eins og ég drakk "kaffisykurbrauðogmjólk" hjá ömmu.

Ástæðan fyrir úthýsingu Tinna í Kongó,  er sögð vera sú að "bókin lýsi íbúum Kongó sem fáráðum sem í einfeldni sinni geri hund að kóngi".  Því þyki bókin uppfull af kynþáttafordómum.

Halló !  Er ekki verið að brjóta dýraverndunarlög hérna ?

Nú stend ég fast á því, að farið sé fram á sönnunarbyrði í málinu.

Ég heimta semsagt greindarvísitölupróf á alla íbúa Kongó.  Kannski eru þeir bara fáráðar ? 

Og kannski var hundurinn besti kosturinn ?


Klukkuð af Halldóri og hrossinu í haganum.

 

Nú hef ég verið klukkuð tvisvar svo ég get ekki skorast undan og verð að segja átta atriði um mig.  Ætla að upplýsa ykkur um ýmislegt sem þið ekki vissuð um mig. Wink

  1. Ég er Snæfellingur
  2. Ég kann að tefla
  3. Ég fékk mér tattoo í fyrra
  4. Ég er 43 ára
  5. Ég er Bifrestingur
  6. Ég er 1,67 á hæð
  7. Ég er með brúnt hár
  8. Ég er að drepast úr hógværð.   NOT ! LoL  ok, þetta var ekki að marka.

    8....Ég er fjármálastjóri

 

Og svo hleyp ég af stað og klukka 8 aðila og held svo áfram að bulla.

 


Hvernig ætli það sé ?

 

Jæja krakkar.

Erum við annars ekki öll krakkar ?

Einn minn besti vinur í þessu lífi, var briddsfélagi minn til 11 ára.  Hann var tæpum fjörutíu árum eldri en ég og mér fannst hann alltaf vera strákur.  Smile  Við spiluðum saman einu sinni í viku og spjölluðum svo um spilin, lífið og tilveruna, oftast tveimur dögum síðar.  Á milli okkar féll aldrei styggðaryrði.  Oft þegar við vorum að kynna okkur fyrir ókunnugum bridgespilurum, þá sögðum við "við systkinin" því við bárum sama föðurnafn.  Það var stundum óborganlegt að sjá svipinn sem kom á mótspilarana. LoL

Ég er stundum að velta því fyrir mér hvort ég vakni einhvern daginn, orðin kjéddling ?  Það þætti mér að sumu leiti fyndið - en bara að sumu leyti.  Mér finnst ég alltaf vera stelpa.  Kannski tvisvar á ári kona og af og til eins og strákur.  

Hvað ætli fólki finnist þegar það er orðið aldrað, í árum talið ?

 

old-couple-parc.vga

 


Galdraþulan mín.

 

Brattur bloggvinur minn er í miklu uppáhaldi hjá mér. Smile

002_2A

(ææ, pínulítil mynd..... jæja)

Við Brattur höfum sama aulahúmorinn sko. LoL   Hann er ógurlega góð sál þessi maður og sér gjarnan annan vinkil á hlutunum - sem mér finnst skemmtilegt og þroskandi.... og ekki veitir mér af örlítið auknum þroska.   

Brattur samdi eftirfarandi galdraþulu fyrir mig.  HeartSmile

 

Galdraþulan hennar Önnu.

úr auðninni
kemur sálin
sem þú átt að sættast við

með vindinum
kemur málið
sem þú átt að læra

með regninu
kemur vatnið
sem andlit þitt þvær

úr sjónum
kemur marbendill
sem þig frelsar

og þá
og loksins þá
ertu tilbúin
að takast á
við lífið

en aldrei gleyma
nei, aldrei, aldrei gleyma

að þú átt þig sjálf


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sparisjóður grínista og nágrennis.

 

Anna Einarsdóttir
Anna Einarsdóttir

  

Af gefnu tilefni skal það tekið fram, að allt sem ég skrái á þessa síðu er vel meint, þótt það á köflum geti hljómað eins og illa meint,, þá er það alls ekki þannig meint. 

Bankahólfið

Alltaf á Toppnum....

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 342837

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband