23.1.2008 | 23:39
Tvíburaljósin mín.
Bestu bloggararnir eru, að mínu mati, þeir sem skrifa frá hjartanu. Þar nefni ég til dæmis bloggvinkonur mínar, þær Ragnheiði og Guðrúnu Örnu.
Aldrei á ég nú eftir að komast með tærnar þar sem þær hafa hælana en ætla þó að skrifa eins og eitt einlægt blogg...... blogga frá hjartanu.
Athugið að það verður bara eitt svona blogg...... og svo heldur bullið áfram.
------------------------------------------------
Fyrir 13 árum, varð ég ólétt. Þá átti ég fyrir tvö yndisleg börn. Fljótlega á meðgöngunni dreymdi mig draum. Mig dreymdi að ég fór í tvær mæðraskoðanir. Ekki hugsaði ég mikið um þennan draum, fyrr en mig dreymdi annan, aðeins síðar. Þá dreymdi mig að ég fékk tvo happadrættisvinninga.
Morguninn eftir þann draum, þegar ég mætti í vinnuna, sagði ég við stelpu sem vann með mér:
"Ef að ég geng með tvíbura, þá er ég berdreymin". Þessu kastaði ég fram í hálfkæringi, þar sem það hafði ekki, í eina mínútu, hvarflað að mér að ég gæti átt tvíbura. Engir tvíburar í ættinni, mér vitanlega.
Allnokkru síðar fer ég í fyrstu sónarskoðunina. Þá kom upp mynd af tveimur litlum krílum á skjánum. Þótt ég hefði átt að verða mjög hissa, varð ég það samt ekki. Draumarnir sátu enn í mér. Líður svo á meðgönguna. Þegar ég er komin 20 vikur á leið, missi ég dálítið legvatn. Var ég flutt í skyndi á sjúkrahús. Við skoðun kom í ljós að gat var komið á annan belginn. Mér var tjáð að litlar líkur væru á að meðgangan myndi takast, þar sem algengt væri að fæðing færi af stað fljótlega eftir svona legvatnsmissi.
Við tók spítalalega. Í tvær vikur lá ég á Akranesi en var síðan flutt til Reykjavíkur, á meðgöngudeild Landspítalans. Þar lá ég næstu vikurnar. Hver vika sem leið, var sem Guðs gjöf fyrir mig. Hver einasta vika, hver einasti dagur, taldi. Lífslíkur barnanna jukust. Eftir 26 vikna meðgöngu, gáfu læknarnir mér veika von. Meiri vonir eftir 27 vikur og eftir 28 vikur voru læknarnir farnir að brosa til mín. Líkurnar orðnar töluvert góðar. Allan tímann var ég viss um að þetta færi vel. Draumarnir !
Í 29. viku fór fæðing af stað. Læknarnir gáfu mér dripp, til að reyna að stöðva fæðinguna. Sólarhringurinn sem á eftir kom, er einn sá líkamlega erfiðasti, sem ég hef lifað. Að fæða barn undir venjulegum kringumstæðum, finnst mér eiginlega frekar lítið mál. Að vera með hríðar, sem eru stöðvaðar með lyfjum, verkar eins og ein stór samfelld hríð. Í sólarhring var ég með samfelldar hríðar og ofan í það kom óttinn um börnin mín. Loks gafst ég upp og sagði læknunum að ég gæti ekki meira. Bara gat ekki tekið meiri sársauka. Stúlkurnar mínar fæddust með 8 mínútna millibili það kvöldið.
Þær voru strax teknar frá mér og hlaupið með þær í burtu. Eftir, að því er mér virtist óratíma, kom læknirinn til mín. Hann sagði mér að því miður væri önnur dóttirin að deyja en góðu fréttirnar væru þær, að hin stúlkan fékk 9 í einkunn. 9 í einkunn þýðir 90% lífslíkur. Síðan spurði hann hvort við vildum sjá dótturina sem væri að fara ?
Hvernig svarar maður svona spurningu ? Á þessari stundu var ég örþreytt eftir átök í heilan sólarhring. Ég man að hugsanirnar flugu um kollinn á mér. Var ég tilbúin í þessa lífsreynslu. Gat ég horft á barnið mitt deyja ? Læknirinn hjálpaði mér. Hann sagðist ætla að koma með hana og svo hvarf hann fram.
Þegar þeir rúlluðu barninu inn í stofuna, var hún enn að taka síðustu andköfin. Það var hræðilegt að geta ekki hjálpað henni. Þetta var lífsreynsla sem markaði mig ævilangt. Ljósmyndir voru teknar af henni og hún kvödd af niðurbrotnum foreldrum.
Læknar og hjúkrunarfólk sögðu við okkur þessa undarlegu setningu: "Ég samhryggist og til hamingju".
Tilfinningar mínar voru frosnar. Ég grét ekki og ég var ekki glöð. Bara steinfrosin. Augnablik fékk ég að sjá hina dótturina í kassa á gjörgæslu barnaspítalans. Þær voru ólíkar systurnar en báðar svo fallegar. Rúmlega 4 merkur hvor en samt svo svipmiklar og "tilbúnar".
Daginn eftir var ég ennþá tilfinningalega frosin. Ég man að ég hafði sjálf áhyggjur af viðbrögðum mínum. Hvað var að mér ? Ég var að missa barnið mitt og ég grét ekki. Síðdegis þann dag kom yfirlæknirinn til mín. Hann brosti og sagði að sú litla spjaraði sig vel. Þá brustu hjá mér allar gáttir og ég grét lengi, lengi.
Næstu tveir dagar voru mjög sveiflukenndir hjá mér. Ýmist grét ég eða gladdist. Grét yfir dótturinni sem ég missti og gladdist yfir dótturinni sem ég átti. Löngum stundum sat ég yfir kassanum og horfði á dótturina. Langaði svo ofboðslega að halda á henni en það var ekki hægt. Ef hún grét í kassanum, grét ég fyrir utan kassann. Ég gat bara haldið í litlu hendina hennar.
Nú vík ég aftur að meðgöngunni. Þegar ég hafði legið í sex vikur samfellt á bakinu, fór ég að fá verk í nára. Ég hafði lítið getað hreyft mig í legunni, því ef ég færði mig á hliðina, fann ég að legvatnið lak. Þar sem það var lífsspursmál fyrir barnið að hafa legvatn, varð ég að liggja nánast eingöngu á bakinu allan tímann. Verkurinn í nára varð meiri og ég bað lækni að athuga mig. Hann setti mig í nýrnasónar en það kom ekkert út úr því. Þá var ekki meira gert. Hjúkrunarkonurnar vorkenndu mér að finna svona til og sendu mér nuddkonu. Hún nuddaði nárann en allt kom fyrir ekki. Ég var drulluaum.
Tveimur dögum eftir fæðinguna, tek ég eftir því, þegar ég er að koma af Barnadeildinni, að fóturinn er orðinn tvöfaldur. Ég hringi bjöllunni og bendi hjúkrunarkonu á afmyndaðan fótinn. Hún segist ætla að láta vita af þessu. Síðan er ekki meira gert. Hugur minn var allur hjá dótturinni og ég var auk þess dofin af atburðum liðinna daga svo ég hafði minnstar áhyggjur af sjálfri mér.
Fjórum dögum eftir fæðingu dætranna seig enn meira á ógæfuhliðina. Dóttir mín í kassanum átti orðið erfitt með andardrátt og allir mælar fóru í vitlausar áttir. Súrefnismagn í blóði minnkaði skv. mælunum og hún átti sífellt erfiðara. Þetta kvöld dó hún líka.
Ég fékk hana fyrst í fangið þegar hún var dáin. Það var sárara en hægt er að lýsa. Brjóstin mín full af mjólk og báðar dæturnar dánar. Við tókum langan tíma í að kveðja hana. Mér þótti vænt um að ein hjúkrunarkonan á deildinni grét líka yfir dóttur minni.
Aðeins ein pínulítil ljósglæta var í mínum huga, síðar þetta kvöld. Ég var á leiðinni heim til hinna barnanna minna. Útgrátin klæddi ég mig í fötin mín og gekk af stað út ganginn. Þá var kallað í mig. "Heyrðu, við áttum eftir að skoða á þér fótinn". Næst var ég send í hinn endann á spítalanum, niður allan ganginn. Við skoðun kom í ljós að ég var með stóran blóðtappa í aðalæð í nára. Afleiðing af langri legu, auk þess sem ófrískum konum er mun hættara að fá tappa en öðrum.
Eftir þessa niðurstöðu, var mér sagt að setjast í hjólastól og svo var aftur keyrt á fæðingardeildina og ég háttuð upp í rúm og sett á blóðþynningu í æð. Næsti sólarhringur myndi skera úr um hvort tappinn færi af stað eða ekki. Færi þá í lungun og líkurnar fyrir mig 50/50. Á þessari stundu var mér næstum því sama hvað um mig yrði.
Næstu daga lá ég á grænu klósetti á fæðingardeildinni. Það var eina einkastofan sem til var. Það slapp svosem til meðan ég lá þar. Það var miklu verra þegar ég gat farið aftur á stjá. Ofboðslega var erfitt að fara fram á gang og sjá allar glöðu, nýbökuðu mæðurnar með börnin sín. Nei, ég vildi helst bara vera inni á ljóta græna klósettinu.
Ég fékk að skreppa út dagpart til að vera við kistulagningu dætra minna. Athöfn þar sem eingöngu voru viðstaddir foreldrar, systkini, prestur og einn flautuleikari sem spilaði fyrir okkur Ave Maria.
----------------------------------------
Nú eru liðin rúm tólf ár síðan.
Fljótlega eftir missinn, ákvað ég að þetta yrði að hafa tilgang. Ég bara bjó til tilgang. Gerðist styrktarforeldri stúlku í Kashastan sem var fædd sama ár og hef styrkt hana síðan. Einnig hringdi ég í Ingibjörgu Pálmadóttur, þáverandi heilbrigðisráðherra og bað hana vinsamlegast að leiðrétta fæðingarorlof fyrir tvíburaforeldra. Fæðingarorlof á þeim tíma var 3 mánuðir fyrir eitt barn og 4 mánuðir fyrir tvíbura. Mér fannst það mjög óréttlátt og vildi ekki að tvíburaforeldrar framtíðarinnar byggju við það. Hún var sammála mér og leiðrétti þetta mjög fljótt. Þarmeð var kominn EINHVER tilgangur og það hjálpaði mér.
----------------------------------------
Það sem mig langar mest að koma á framfæri með þessari færslu er þetta:
Það koma upp þau tilvik í lífinu að maður hefur ekkert val. En.... maður getur alltaf valið hvernig maður bregst við erfiðleikunum. Erfiðleikar styrkja fólk og þroska. Ég verð alltaf þakklát fyrir þann þroska sem ég öðlaðist þarna, þótt ég sakni alltaf litlu ljósanna sem ég fékk ekki að hafa hjá mér í lífinu.
Ég hefði aldrei viljað missa af þessum litla tíma sem við áttum saman.
---------------------------------------
Tveimur mánuðum eftir fæðinguna, varð ég ólétt aftur. Það átti ég ekki að verða, samkvæmt fyrirmælum frá læknunum en það gerðist.... til allrar hamingju. Ég sprautaði mig með blóðþynningarlyfjum á meðgöngunni.
Lítil, falleg dóttir fæddist mér ellefu mánuðum eftir að ég missti tvíburana.
Hálfu ári eftir missinn mikla, fór húmorinn að gægjast í gegn hjá mér aftur.
Ég sagði: "Þrjú börn á einu ári. Tryggingastofnun heldur örugglega að ég sé kanína".
Um bloggið
Sparisjóður grínista og nágrennis.
Eldri færslur
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.4.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 16
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Gíslína Erlendsdóttir
-
Brattur
-
Ragnheiður
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Hugarfluga
-
Halldór Egill Guðnason
-
Sæmundur Bjarnason
-
Brjánn Guðjónsson
-
Gulli litli
-
Ingibjörg Friðriksdóttir
-
Marinó G. Njálsson
-
Svanur Gísli Þorkelsson
-
Þorsteinn Sverrisson
-
Árni Gunnarsson
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Finnur Bárðarson
-
Bjarni Harðarson
-
Ingibjörg Hinriksdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Guðni Már Henningsson
-
Íris Guðmundsdóttir
-
Edda Agnarsdóttir
-
Rannveig Guðmundsdóttir
-
Kristjana Bjarnadóttir
-
Erna Bjarnadóttir
-
Þorsteinn Valur Baldvinsson
-
Þórdís Björk Sigurþórsdóttir
-
Haraldur Sigurðsson
-
Ásgeir Kristinn Lárusson
-
Daði Ingólfsson
-
Óskar Þorkelsson
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Egill Bjarnason
-
Sigurður Grétar Guðmundsson
-
Kát Svínleifs
-
Einar Indriðason
-
arnar valgeirsson
-
Kama Sutra
-
hilmar jónsson
-
Eiður Svanberg Guðnason
-
AK-72
-
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir
-
Dísa Dóra
-
Sigurður Einarsson
-
Gunnar Helgi Eysteinsson
-
Jóhannes Guðnason
-
Brynjar Jóhannsson
-
Jón Steinar Ragnarsson
-
Magga tagga
-
Fanney Björg Karlsdóttir
-
Tófulöpp
-
Valgeir Skagfjörð
-
kop
-
Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir
-
Björgvin R. Leifsson
-
Gunnar Helgi Eysteinsson
-
Svanhildur Karlsdóttir
-
Brosveitan - Pétur Reynisson
-
Aprílrós
-
Guðrún Björk
-
Guðmundur Óli Scheving
-
Helgi Jóhann Hauksson
-
Katan
-
Páll Rúnar Elíson
-
Þórir Aðalsteinsson
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Kristín Snorradóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Gunnar Níelsson
-
Jón Ólafur Vilhjálmsson
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Bjarni Sæmundsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Þórdís tinna
-
Eva Hrönn Jóhannsdóttir
-
Jóhannes Freyr Stefánsson
-
kloi
-
Bjarndís Helena Mitchell
-
Ragnar Gunnarsson
-
Brynja skordal
-
Vefritid
-
Tryggvi Gunnar Hansen
-
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
-
Garún
-
Hörður B Hjartarson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Halldór Egill Guðnason, 23.1.2008 kl. 23:47
Úff.. svakaleg frásögn, ég fékk gæsahúð. Takk fyrir að deila þessu með okkur
Gunnar Th. Gunnarsson, 24.1.2008 kl. 00:05
Elsku vina, þetta er virkilega átakanleg frásögn. Þetta hefur verið alveg hræðilegur tími fyrir þig sem þú gleymir aldrei. Ég á sjálf tvíbura, þekki hræðsluna við fyrirburafæðinguna (þau fæddust í 30. viku - stelpa og strákur). En að setja sig í spor móður sem missir börnin sín er eitthvað sem ég get ekki sett mig í og mig setur hljóða. Ég er svo sannfærð um að litlu englarnir þínir fylgi þér hvert fótspor. Gott hjá þér að láta jákvætt af þessu leiða. Sýnir sterkan persónuleika.
Með kærleik og ljósi
, Guðrún Arna
Guðrún Arna Möller (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 00:40
Elsku Anna mín
Svanhildur Karlsdóttir, 24.1.2008 kl. 07:50
Þynsta líkkista sem ég hef borið á ævinni, er barnskistan sem ég bar að leiði dóttur minnar í júlí 1992.
Sá sem kynnist sorginni sér oftar glaðan dag en sá sem ekki hefur, við lærum og endurmetum raunverulegt gildi hlutana, og þar vega veraldlegar eignir oft létt, en mannleg tengsl og lífið verður að ómetanlegum auð.
Takk fyrir að deila þessu Anna, fyrir mér ertu miklu stærri núna, varst samt tröll fyrir.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 24.1.2008 kl. 08:45
Elsku Anna.
Mig setur hljóða.
Kossar og knús til þín og fallegu barnanna þinna.
kveðja, Þorbjörg.
Þorbjörg (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 09:09
mig skortir orð...... ótrúlegt hvað mikið er lagt á suma og nánast ekkert á aðra...... takk fyrir að deila þessu með okkur..........
.......en þú hefur greinilega fengið overdós af humor í vöggugjöf...sbr kanínusamlíkinguna........ þú ert frábær....
Fanney Björg Karlsdóttir, 24.1.2008 kl. 09:54
Elsku Anna. Þetta hefur verið sársaukafull reynsla fyrir þig. Þessi vísa kemur frá hjartanu eins og færslan þín.
Þær dvöldu hérna ofurlítið augnablik hjá þér
og aldrei breytist það.
Með lífi sínu báðar, þær hafa helgað sér
í hjarta þínu stað.
Kveðja frá Áslaugu og Sæmundi.
asben (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 10:39
Hjálpi mér Anna mín. Ég las þessa færslu með tárin í augunum.Skilningur minn á þér hefur dýpkað. Þú hefur svo ótrúlega oft hitt á að segja við mig eitthvað sem hefur hitt í mark, orð sem ég hef skilið. Nú sé ég hvers vegna. Þú þekkir og skilur.
Takk fyrir að vera vinkona mín og hjartans þakklæti fyrir þessa færslu. Mig setur alveg hljóða.
Mér þykir svo vænt um þig
Ragnheiður , 24.1.2008 kl. 10:58
Kæra Anna.
Kem hér stundum og les...en núna les ég með tárin í augunum.
Kveðja Heiður.
Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 24.1.2008 kl. 11:54
Hrönn Sigurðardóttir, 24.1.2008 kl. 12:25
Ljós reynslunnar - þroski og þakklæti - kveðja...
Ásgeir Kristinn Lárusson, 24.1.2008 kl. 12:52
Takk!
Ingibjörg Friðriksdóttir, 24.1.2008 kl. 14:27
Elsku besta Annan mín. Mikið er ég stolt af þér og að eiga þig fyrir bloggvinkonu. Þú ert einstök.
Hugarfluga, 24.1.2008 kl. 16:15
Takk fyrir að deila þessu með okkur, þessu fylgir nefnilega líka ákveðin lífsspeki, hvernig vinnum við úr reynslubrunninum, ekki síður takk fyrir það
Kristjana Bjarnadóttir, 24.1.2008 kl. 16:21
Hæ Anna
Ég sit í vinnunni með kökk í hálsi og tár í augum. Þetta hlýtur að vera með því erfiðara sem nokkur getur upplifað. Ég hef dáðst að húmornum hjá þér í laumi því ég hef lesið síðuna þína reglulega án þess að kvitta fyrir. Nú get ég dáðst að styrk þínum en ég get það ekki án þess að segja þér frá því.
Kveðja Linda Björk (fyrrum Miklhreppingur frá Seli)
Linda Björk Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 16:33
Þú ert einstök Anna og takk fyrir að deila þessu með okkur.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 24.1.2008 kl. 16:52
Kæra vinkona....
Takk fyrir að deila þessu með okkur...
Það sýnir svooo hvað þú ert sterk sál...
,,það sem þú hefur óskað þér, dreymt um og vonað að væri til getur orðið að veruleika í hinni fögru paradís óendanleikans."
Eigðu góðan dag.
H.
Helga Björk Bjarnadóttir (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 17:12
Það er ekki á allra færi að deila með öðrum slíka lífsreynslu, það sem ég les úr þessari frásögn, er hvernig við hin getum lært af henni, hvernig við getum þakkað fyrir hverja stund sem við eigum í samfélagi við hvort annað, hvort sem um er að ræða fjölskyldu, vini eða annað samferðafólk. Heiðarleiki, vinskapur og ástríki skín úr þessari sorglegu frásögn og megir þú og fjölskyldan þín eiga góðar og ánægjulegar stundir.
Gangið brosandi á mót lífinu og þá brosir lífið á móti.
Jón Svavarsson, 24.1.2008 kl. 17:39
úffffffffffff sit hér og græt eftir þennan lestur en er samt svo undarlega glöð yfir að kynnast þeim ótrúlega styrk sem þú hefur til að bera. Það er svo sannarlega rétt hjá þér að maður hefur val um hvernig maður bregst við efiðleikum og þú hefur ákveðið að bregðast við sem sigurvegari.
Takk fyrir þenna einlæga og frábæra pistil
Dísa Dóra, 24.1.2008 kl. 17:40
Takk fyrir áhrifamikla og einlæga frásögn....
Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 18:50
... þú er einstök Anna, hvernig þú hefur unnið úr sorginni, úr erfiðleikunum sem þér hafa mætt í lífinu, er aðdáunarvert... hvernig þú ert heilsteypt og falleg manneskja í dag, hefur haldið utan um börnin þín og heimili með miklum styrk... hjálpsöm við þá sem eiga um sárt að binda, sýnir hvað þú hefur þroskast, meira en flestir aðrir, í gegnum lífið og orðið sú yndislega manneskja sem ég horfi mest upp til í dag sem fyrirmynd... ég hef lært mikið af þér...
... megi framtíðin vera þér gleðileg og hamingjurík... þú átt það svo sannarlega skilið...
Brattur, 24.1.2008 kl. 19:59
Úff ég veit ekki hvað skal segja, það eru svo margir sem sagt hafa það sem ég mundi vilja sagt hafa. Þú ert einstök og líka mjög sérstök. Þetta er ótrúleg lífsreynsla og kjarkur þinn er ómetanlegur.
Hafðu það gott Anna mín.
Edda Agnarsdóttir, 24.1.2008 kl. 20:51
Jæja.
Ég er nú bara venjuleg stelpa og kann auðvitað ekkert að bregðast við svona mörgum, stórum, fallegum orðum og heilu setningunum um mig.
Segi því bara: TAKK KÆRLEGA !
Þið eruð best.
Anna Einarsdóttir, 24.1.2008 kl. 20:59
Takk fyrir að deila þessu með okkur Anna mín

Katrín Ósk Adamsdóttir, 24.1.2008 kl. 23:40
Úff! Knús á þig fyrir þetta!
Einar Indriðason, 25.1.2008 kl. 08:36
Sæl Anna, hef ekki skrifað áður hér inn en þú ert frábær bloggari. Ég lenti í svipaðri reynslu í sumar og fékk einmitt blóðtappa í kjölfarið í lungun. Takk fyrir að deila þessu.
Inga S. (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 09:05
Sæl Anna.
Þetta er rosaleg frásögn og ég sit hérna með tárin í augunum. Takk fyrir að deila þessu með okkur, því að það hafa allir gott af því að heyra svona sögu. Ótrulegt að fólk komist heilt út úr svona löguðu.
Ella (ókunnug) (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 22:17
Almáttugur hvað þetta er hræðilega sorglegt. Það sem þú hefur mátt þola! Hér sit ég með tárin í augunum og veit ekki hvað á að segja annað en, takk fyrir að segja sögu þína. Hún óneitanlega minnir mann á hversu heppinn maður er að hafa fólkið í kring um mann sem að skiptir mann máli. þú ert svo marfallt sterkari en ég nokkurntíma gæti óskað að ég væri. xx
Linda (ókunnug) (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 22:52
Vá ... þessi frásögn snerti svo sannarlega við mér.
Álfheiður (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 09:39
sæl anna mömmubloggvinkona!!
mamma sagði mér frá blogginu þínu og nú er ég búin að lesa söguna þína...þú ert greinilega jafn
einstök og mamma hefur sagt mér. takk fyrir að segja okkur hinum frá reynslu þinni,
fær mig til að þakka fyrir það sem ég hef og meta það! þú ert algjör hetja og ekki
bara það heldur kanína líka!
kærleiksknús frá bóel imbudóttur í sverige
boel (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 08:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.