Færsluflokkur: Bloggar

Gleðileg jól !

 

Kæru vinir, nær og fjær.

Mínar bestu óskir um allt-umvefjandi gleði og ást þessa jólahátíð.

Brosið, gleðjist, elskið, gefið og belgið ykkur út.

.

jól 

.

Þess óskar hún Anna litla frá Holti.  InLove

.


Búin að öllu, búin að öllu :-)

 

Sólarhring á undan áætlun, sitjum við gamla settið heima og bíðum eftir jólunum.  Wizard

Æjhhh hvað það er notalegt.  Á morgun þarf bara að klára vinnudaginn, versla grænmeti og ávexti og rjóma og halda svo áfram að bíða. 

 Joyful

Og hún beið og beið og beið...........

........ og BEIÐ OG BEIÐ OG BEIÐ......

..... OG BEIÐ OG BEIÐ OG BEIÐ....

.... OG BEIРOG BEIРOG BEIР Whistling

.

waiting

.

Nei sko...... þetta er bara grín.  Þetta er ekki ég.  Smile

.

 


Það tekur því ekki.

 

Í kvöldfréttunum var meðal annars rætt um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.

Dóttir mín, 12 ára, horfði á.

Svo gall í henni;

Af hverju er hann að bjóða sig fram ?   Hann er 71 árs !   W00t

Góð spurning hjá henni.  Joyful

-------------------

Þegar ég var 19 ára var ég kölluð KERLING af nokkrum unglingum.  Pouty

Það er því í hæsta máta eðlilegt að McCain sé útrunninn í augum dóttur minnar.

.

McCain 

.


Það var SAMT kleinubragð af kleinunum.

 

Nennið er horfið.  Gasp

Ég hef ekki nennt að blogga.  Kannski ekki skrýtið þar sem ég vinn á tveimur vinnustöðum þessa dagana og er þess á milli auðvitað hin besta húsmóðir.  Cool  Var ég búin að segja að ég gerði kleinur um daginn ?  Úúú..... þær heppnuðust allvel miðað við fyrsta kleinubakstur.  Fór enda alveg eftir uppskriftinni.  Á handskrifaðri uppskriftinni stóð 1 2 tsk. kardimommudropar.  Ég horfði á þetta og velti því fyrir mér hvort verið væri að meina hálfa teskeið eða eina til tvær ?  Setti svo eina og hálfa teskeið eftir djúpa íhugun.  Vinnufélögum fannst kleinurnar góðar en þó heldur bragðlausar.  Þær spurðu hversu marga dropa ég hefði sett í deigið sem var 2 kíló.  Mér skilst eftirá að þarna hafi staðið tólf teskeiðar.  Blush  Ég get þó svarið að ég fann kleinubragð af kleinunum.

.

of=50,590,393

.

Katla Gustavsberg köttur er nýbúin að læra að fara út og inn og út og inn og svo aftur út og það er nú rétt hægt að gera sér í hugarlund hversu mikill tími fer í að opna hurðina.  Pinch   Mér líður eins og ég sé sjálfvirkur svalahurðaropnari.  FootinMouth

Ég forðast að hugsa um stjórnmál þessa dagana þar sem ég vil helst vera í góðu skapi.  Wink

Mikið er ég samt ánægð að eiga hæfilega lítið af peningum.  Þá þarf ég engar áhyggjur að hafa af því hvort bankar fari á kollinn.  Ég er sko alltaf að græða.  Joyful 

Allir í fjölskyldunni dafna vel og njóta sín. 

Ég er hamingjusöm í kreppunni.  Happy


Kötturinn er eins og íslenskt húsnæðislán.

 

Þessi mynd er tekin fyrir hálfu ári.  Hrafnkatla Gustavsberg ofurkrútt. 

.

kisix 

.

EN .....  Errm ......... hún borðar of mikið.  Crying

Í dag nær hún alveg upp í loft.  Sagt og skrifað;  upp í loft !

 

 

.

kisi 

.

Hrafnkatla fer til dýralæknis í næstu viku.  Ég held hún sé með verðbólguna.  FootinMouth

.


Ekki missa af einlægri frásögn úr íslenskum veruleika.

 

Í gær las ég færslu hjá bloggvinkonu,  sem snerti verulega við mér.

Þessi saga hefur komið upp í huga mér af og til í allan dag.......

Sagan sem sögð er, er hjartnæm og sú sem söguna ritar kann svo sannarlega að hrífa mann með sér.  Ekki fleiri orð um það....... Hérna er linkur á færsluna.

Ég hvet ykkur til að skilja eftir komment á síðunni hennar.  Wink

.

MHP-_Eclipse_of_the_Heart 

.


Svartur dagur.

 

Frú Jónasson var að dauða komin og gerði boð fyrir eiginmann sinn og sagði:  

"Í jarðarförina vil ég að þú farir í bíl með bróður mínum".

Hann:   En ég hef aldrei þolað bróður þinn.

"Það verður svona, sagði frúin.  Þetta er síðasta ósk mín".

Hann:  Þá það, en þetta eyðileggur alveg daginn fyrir mér.

.

.

grizzled-old-man-large 

.


Loksins sjáum við dómara sem þora.

 

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær karlmann í 4 ára fangelsi fyrir nauðgun. 

Ef konur eiga að finna sig óhultar á Íslandi, er nauðsynlegt að dómstólar landsins líti á þennan dóm sem fordæmi.  Það eru ekki ýkja mörg ár síðan löggjafinn veitti rýmri heimildir í refsiramma dómstóla í ofbeldismálum.  Dómarar hafa hins vegar ekki nýtt sér það og vísa alltaf til þess að "ekki séu fordæmi".  Nú er fordæmið komið og ég hrópa húrra fyrir því.

Ég vil að dómstólar sendi þau skilaboð út í þjóðfélagið að nauðganir og heimilisofbeldi sé ekki liðið.


mbl.is Hlaut fjögurra ára fangelsi fyrir hrottafengna nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvíburaljósin mín.

 

Bestu bloggararnir eru, að mínu mati, þeir sem skrifa frá hjartanu.  Þar nefni ég til dæmis bloggvinkonur mínar, þær Ragnheiði og Guðrúnu Örnu.  

Aldrei á ég nú eftir að komast með tærnar þar sem þær hafa hælana en ætla þó að skrifa eins og eitt einlægt blogg...... blogga frá hjartanu.  Heart

Athugið að það verður bara eitt svona blogg...... og svo heldur bullið áfram.  Wink

 ------------------------------------------------

 

Fyrir 13 árum, varð ég ólétt.  Þá átti ég fyrir tvö yndisleg börn.  Fljótlega á meðgöngunni dreymdi mig draum.  Mig dreymdi að ég fór í tvær mæðraskoðanir.  Ekki hugsaði ég mikið um þennan draum, fyrr en mig dreymdi annan, aðeins síðar.  Þá dreymdi mig að ég fékk tvo happadrættisvinninga.

Morguninn eftir þann draum, þegar ég mætti í vinnuna, sagði ég við stelpu sem vann með mér: 

"Ef að ég geng með tvíbura, þá er ég berdreymin".  Þessu kastaði ég fram í hálfkæringi, þar sem það hafði ekki, í eina mínútu, hvarflað að mér að ég gæti átt tvíbura.  Engir tvíburar í ættinni, mér vitanlega.

Allnokkru síðar fer ég í fyrstu sónarskoðunina.  Þá kom upp mynd af tveimur litlum krílum á skjánum.  Þótt ég hefði átt að verða mjög hissa, varð ég það samt ekki.  Draumarnir sátu enn í mér.  Líður svo á meðgönguna.  Þegar ég er komin 20 vikur á leið, missi ég dálítið legvatn.  Var ég flutt í skyndi á sjúkrahús.  Við skoðun kom í ljós að gat var komið á annan belginn.  Mér var tjáð að litlar líkur væru á að meðgangan myndi takast, þar sem algengt væri að fæðing færi af stað fljótlega eftir svona legvatnsmissi.

Við tók spítalalega.  Í tvær vikur lá ég á Akranesi en var síðan flutt til Reykjavíkur, á meðgöngudeild Landspítalans.  Þar lá ég næstu vikurnar.  Hver vika sem leið, var sem Guðs gjöf fyrir mig.  Hver einasta vika, hver einasti dagur, taldi.  Lífslíkur barnanna jukust.  Eftir 26 vikna meðgöngu, gáfu læknarnir mér veika von.   Meiri vonir eftir 27 vikur og eftir 28 vikur voru læknarnir farnir að brosa til mín.  Líkurnar orðnar töluvert góðar.  Allan tímann var ég viss um að þetta færi vel.  Draumarnir !

Í 29. viku fór fæðing af stað.  Læknarnir gáfu mér dripp, til að reyna að stöðva fæðinguna.  Sólarhringurinn sem á eftir kom, er einn sá líkamlega erfiðasti, sem ég hef lifað.  Að fæða barn undir venjulegum kringumstæðum, finnst mér eiginlega frekar lítið mál.  Að vera með hríðar, sem eru stöðvaðar með lyfjum, verkar eins og ein stór samfelld hríð.  Í sólarhring var ég með samfelldar hríðar og ofan í það kom óttinn um börnin mín.  Loks gafst ég upp og sagði læknunum að ég gæti ekki meira.  Bara gat ekki tekið meiri sársauka.  Stúlkurnar mínar fæddust með 8 mínútna millibili það kvöldið.

Þær voru strax teknar frá mér og hlaupið með þær í burtu.  Eftir, að því er mér virtist óratíma, kom læknirinn til mín.  Hann sagði mér að því miður væri önnur dóttirin að deyja en góðu fréttirnar væru þær, að hin stúlkan fékk 9 í einkunn.  9 í einkunn þýðir 90% lífslíkur.  Síðan spurði hann hvort við vildum sjá dótturina sem væri að fara ?

Hvernig svarar maður svona spurningu ?  Á þessari stundu var ég örþreytt eftir átök í heilan sólarhring.  Ég man að hugsanirnar flugu um kollinn á mér.  Var ég tilbúin í þessa lífsreynslu.  Gat ég horft á barnið mitt deyja ?  Læknirinn hjálpaði mér.  Hann sagðist ætla að koma með hana og svo hvarf hann fram.

Þegar þeir rúlluðu barninu inn í stofuna, var hún enn að taka síðustu andköfin.  Það var hræðilegt að geta ekki hjálpað henni.  Þetta var lífsreynsla sem markaði mig ævilangt.  Ljósmyndir voru teknar af henni og hún kvödd af niðurbrotnum foreldrum. 

Læknar og hjúkrunarfólk sögðu við okkur þessa undarlegu setningu:  "Ég samhryggist og til hamingju". 

Tilfinningar mínar voru frosnar.  Ég grét ekki og ég var ekki glöð.  Bara steinfrosin.  Augnablik fékk ég að sjá hina dótturina í kassa á gjörgæslu barnaspítalans.  Þær voru ólíkar systurnar en báðar svo fallegar.  Rúmlega 4 merkur hvor en samt svo svipmiklar og "tilbúnar".

Daginn eftir var ég ennþá tilfinningalega frosin.  Ég man að ég hafði sjálf áhyggjur af viðbrögðum mínum.  Hvað var að mér ?  Ég var að missa barnið mitt og ég grét ekki.  Síðdegis þann dag kom yfirlæknirinn til mín.  Hann brosti og sagði að sú litla spjaraði sig vel.  Þá brustu hjá mér allar gáttir og ég grét lengi, lengi.

Næstu tveir dagar voru mjög sveiflukenndir hjá mér.  Ýmist grét ég eða gladdist.  Grét yfir dótturinni sem ég missti og gladdist yfir dótturinni sem ég átti.  Löngum stundum sat ég yfir kassanum og horfði á dótturina.  Langaði svo ofboðslega að halda á henni en það var ekki hægt.  Ef hún grét í kassanum, grét ég fyrir utan kassann.  Ég gat bara haldið í litlu hendina hennar.

Nú vík ég aftur að meðgöngunni.  Þegar ég hafði legið í sex vikur samfellt á bakinu, fór ég að fá verk í nára.  Ég hafði lítið getað hreyft mig í legunni, því ef ég færði mig á hliðina, fann ég að legvatnið lak.  Þar sem það var lífsspursmál fyrir barnið að hafa legvatn, varð ég að liggja nánast eingöngu á bakinu allan tímann.  Verkurinn í nára varð meiri og ég bað lækni að athuga mig.  Hann setti mig í nýrnasónar en það kom ekkert út úr því.  Þá var ekki meira gert.  Hjúkrunarkonurnar vorkenndu mér að finna svona til og sendu mér nuddkonu.  Hún nuddaði nárann en allt kom fyrir ekki.  Ég var drulluaum.

Tveimur dögum eftir fæðinguna, tek ég eftir því, þegar ég er að koma af Barnadeildinni, að fóturinn er orðinn tvöfaldur.  Ég hringi bjöllunni og bendi hjúkrunarkonu á afmyndaðan fótinn.  Hún segist ætla að láta vita af þessu.  Síðan er ekki meira gert.  Hugur minn var allur hjá dótturinni og ég var auk þess dofin af atburðum liðinna daga svo ég hafði minnstar áhyggjur af sjálfri mér.

Fjórum dögum eftir fæðingu dætranna seig enn meira á ógæfuhliðina.  Dóttir mín í kassanum átti orðið erfitt með andardrátt og allir mælar fóru í vitlausar áttir.  Súrefnismagn í blóði minnkaði skv. mælunum og hún átti sífellt erfiðara.  Þetta kvöld dó hún líka.

Ég fékk hana fyrst í fangið þegar hún var dáin.  Það var sárara en hægt er að lýsa.  Brjóstin mín full af mjólk og báðar dæturnar dánar.   Við tókum langan tíma í að kveðja hana.  Mér þótti vænt um að ein hjúkrunarkonan á deildinni grét líka yfir dóttur minni.

Aðeins ein pínulítil ljósglæta var í mínum huga, síðar þetta kvöld.  Ég var á leiðinni heim til hinna barnanna minna.   Útgrátin klæddi ég mig í fötin mín og gekk af stað út ganginn.  Þá var kallað í mig.  "Heyrðu, við áttum eftir að skoða á þér fótinn".  Næst var ég send í hinn endann á spítalanum, niður allan ganginn.  Við skoðun kom í ljós að ég var með stóran blóðtappa í aðalæð í nára.  Afleiðing af langri legu, auk þess sem ófrískum konum er mun hættara að fá tappa en öðrum.

Eftir þessa niðurstöðu, var mér sagt að setjast í hjólastól og svo var aftur keyrt á fæðingardeildina og ég háttuð upp í rúm og sett á blóðþynningu í æð.  Næsti sólarhringur myndi skera úr um hvort tappinn færi af stað eða ekki.  Færi þá í lungun og líkurnar fyrir mig 50/50.   Á þessari stundu var mér næstum því sama hvað um mig yrði.

Næstu daga lá ég á grænu klósetti á fæðingardeildinni.  Það var eina einkastofan sem til var.  Það slapp svosem til meðan ég lá þar.  Það var miklu verra þegar ég gat farið aftur á stjá.  Ofboðslega var erfitt að fara fram á gang og sjá allar glöðu, nýbökuðu mæðurnar með börnin sín.  Nei, ég vildi helst bara vera inni á ljóta græna klósettinu.

Ég fékk að skreppa út dagpart til að vera við kistulagningu dætra minna.  Athöfn þar sem eingöngu voru viðstaddir foreldrar, systkini, prestur og einn flautuleikari sem spilaði fyrir okkur Ave Maria.

----------------------------------------

 

Nú eru liðin rúm tólf ár síðan.  

Fljótlega eftir missinn, ákvað ég að þetta yrði að hafa tilgang.  Ég bara bjó til tilgang.  Gerðist styrktarforeldri stúlku í Kashastan sem var fædd sama ár og hef styrkt hana síðan.  Einnig hringdi ég í Ingibjörgu Pálmadóttur, þáverandi heilbrigðisráðherra og bað hana vinsamlegast að leiðrétta fæðingarorlof fyrir tvíburaforeldra.  Fæðingarorlof á þeim tíma var 3 mánuðir fyrir eitt barn og 4 mánuðir fyrir tvíbura.  Mér fannst það mjög óréttlátt og vildi ekki að tvíburaforeldrar framtíðarinnar byggju við það.  Hún var sammála mér og leiðrétti þetta mjög fljótt.  Þarmeð var kominn EINHVER tilgangur og það hjálpaði mér.

----------------------------------------

Það sem mig langar mest að koma á framfæri með þessari færslu er þetta:

Það koma upp þau tilvik í lífinu að maður hefur ekkert val.  En.... maður getur alltaf valið hvernig maður bregst við erfiðleikunum.  Erfiðleikar styrkja fólk og þroska.  Ég verð alltaf þakklát fyrir þann þroska sem ég öðlaðist þarna, þótt ég sakni alltaf litlu ljósanna sem ég fékk ekki að hafa hjá mér í lífinu. 

Ég hefði aldrei viljað missa af þessum litla tíma sem við áttum saman.

---------------------------------------

Tveimur mánuðum eftir fæðinguna, varð ég ólétt aftur.  Það átti ég ekki að verða, samkvæmt fyrirmælum frá læknunum en það gerðist.... til allrar hamingju.   Ég sprautaði mig með blóðþynningarlyfjum á meðgöngunni.   

Lítil,  falleg dóttir fæddist mér ellefu mánuðum eftir að ég missti tvíburana.

Hálfu ári eftir missinn mikla, fór húmorinn að gægjast í gegn hjá mér aftur.

Ég sagði:  "Þrjú börn á einu ári.  Tryggingastofnun heldur örugglega að ég sé kanína".

 


Bull er ekki bull nema buddl sé

Nú er ljóst að síminn er bilaður.

Annars er ég auðvitað mikið að velta fyrir mér þessari síðu.  Bloggvinir ?  Ég á engan.  Hef reyndar lagt mig í líma við að halda vinum í lágmarki til að spara jólakortakostnað.  Er hagsýn Wink   Skyldi maður þurfa að senda bloggvinum jólakort ?  Held vaddla.  Svo það gæti verið sjens að eiga bloggvin eða tvo.

Lýður Oddsson er séní.  Nú er ég búin að fá sóp-róbót eins og hann Grin  Frábært og ómissandi tæki.  Maður kveikir bara á honum og hann sópar allt húsið, aftur og aftur og eins oft og maður vill.  Ég þurfti reyndar að skúra áðan því hann kann það ekki ennþá.  En það stendur til bóta hjá róbóta.

Á morgun er sunnudagur.  Ég tek mig ekki hátíðlega nema á tyllidögum.  Hef aldrei botnað í fólki sem nennir að sóa tíma í að vera snobbað og hátíðlegt.  Skil heldur ekki hvernig fólk nennir að vera leiðinlegt.  Það hlýtur að vera leiðinlegt að vera leiðinlegur.... eða hvað ?  Jú, hef komist að þeirri niðurstöðu og á sama hátt er heimskulegt að vera heimskur og fyndið að vera fyndinn.  Verð að viðurkenna að ég er óstjórnlega stolt af rökvísi minni Joyful  

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sparisjóður grínista og nágrennis.

 

Anna Einarsdóttir
Anna Einarsdóttir

  

Af gefnu tilefni skal það tekið fram, að allt sem ég skrái á þessa síðu er vel meint, þótt það á köflum geti hljómað eins og illa meint,, þá er það alls ekki þannig meint. 

Bankahólfið

Alltaf á Toppnum....

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband